Gönguferð um nágrenni Bláa Lónsins annan í páskum
Þann 1. apríl næstkomandi (annan í páskum) stendur Bláa Lónið fyrir menningar- og sögutengdri gönguferð um nágrenni Bláa Lónsins, undir leiðsögn Sigrúnar Jónsdóttur Franklín. Gangan hefst kl. 11.00 við bílastæði Bláa Lónsins og er áætlað að hún taki 2-3 klukkustundir. Möguleiki er að fara rúmlega hálfan hring og fá akstur til baka. Leiðin sem farin verður er auðveld yfirferðar og hentar fyrir alla fjölskylduna.
Gengið verður meðal annars um mosagróið Illahraun, framhjá Rauðhól, farið með Skipstíg, fornri þjóðleið, haldið austur með norðurhlíðum Þorbjarnarfells og inn á Baðsvelli. Þá verður gengið yfir að athafnasvæði HS Orku hf. og endað í Bláa Lóninu.
Ekkert þátttökugjald er í gönguna og göngugarpar fá sérverð í Bláa Lónið að henni lokinni.