Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Gömul atvinnutæki fá framhaldslíf í Vogum
Þriðjudagur 12. október 2010 kl. 08:34

Gömul atvinnutæki fá framhaldslíf í Vogum

Þó Anton Guðmundsson í Vogum sé kominn á eftirlaunaaldurinn hefur hann nóg fyrir stafni. Maðurinn er enn fullur af orku sem hann beinir í áhugamálin. Það þekkist að menn geri upp gamla bíla en öllu sjaldgæfara er að menn geri upp gamla aflóga báta eins og Anton hefur gert. Síðastliðinn vetur gekk gamall súðbyrðingur í endurnýjun lífdaga í skúrnum hjá Antoni og er fleyið sem nýtt að sjá eftir að hann fór höndum um það. En Anton lætur ekki þar við sitja. Í skúrnum er núna ríflega hálfrar aldar gömul dráttarvél sem hann er að gera upp en hún fær það hlutverk að draga bátinn milli staða.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Ég ólst upp norður á Ströndum þar sem þessir súðbyrðingar voru algengir á árum áður. Það var mikið um þessa báta áður en plastbátarnir komu til sögunnar. Ég var búinn að leita að einum slíkum út um allt en þeir virtust vera alveg horfnir. En svo fann ég þennan austur í Þorlákshöfn í fyrrahaust en hann hafði verið í óhirðu þar í höfninni í mörg ár. Það var nánast hægt að taka hann í nefið. Tók hann alveg frá A-Ö í vetur, skipti um öll borð og allan saum,“ segir Anton og bætir því við að eiginkonan Óla Sveinbjörg Jónsdóttir hafi staðið að baki honum við endursmíðina. „Maður mátti kaupa allt sem þurfti í þetta,“ segir hann og hlær. Óla bætir því við að hún sé bara fegin að kallinn hafi fundið sér eitthvað að gera, kominn á áttræðisaldur.

En hvað varð til þess að Anton vildi gera upp bátsræfil fremur en gamlan bíl?

„Ég ólst upp við sjávarsíðuna fyrir vestan þar sem trillubátaútgerð var mjög mikil og snar þáttur í lífinu þar. Maður þekkti alla bátana og stundum var nóg að heyra bara vélarhljóðið til að vita hvaða bátur var að koma inn. Svo var ég lengi til sjós og gerði sjálfur út trillubáta þannig að hugur manns stóð næst þessu. Fyrir nokkrum árum gerði ég upp gamlan plastbát en það var ekki eins gaman. Mér fannst miklu skemmtilegra að gera upp þennan. Það var meira ferðalag aftur í fortíðina,“ segir Anton sem hyggst ekki fara í útgerð eins og á árum áður. Báturinn verður eingöngu notaður til skemmtisiglinga og þá verður að öllum líkindum rennt fyrir fisk í soðið.

Í skúrnum er meira en hálfrar aldar gamall, sundurrifinn traktor sem Anton ætlar að dunda við í vetur.

„Þetta leiddi hvað af öðru því svo vantaði mig eitthvað tæki til að koma bátnum upp og niður. Ég fór að tala um þetta við strákinn minn sem kom svo hér einn daginn með rosalegan traktorsgarm og skildi hann eftir hér í innkeyrslunni. Hló svo bara og keyrði í burtu. Og nú er ég í kominn á kaf í traktorinn og það er bara gaman að þessu. Þetta má samt ekki vera of mikið,“ segir Anton sem nostrar við traktorinn af sömu alúðinni og báturinn fékk, skrúfu fyrir skrúfu. Hann mun því ekki sitja auðum höndum í vetur frekar en síðasta vetur. Aðspurður segist hann ekki hafa hugmynd um hversu margar vinnustundir fóru í bátinn. „Maður er ekkert að telja þær heldur nýtur bara ánægjunnar af því að hafa eitthvað skemmtilegt fyrir stafni.