Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Gömlu karlarnir frá Grindavík halda sinni rútínu
Það mátti heyra saumnál detta þegar Alli brýndi raust sína.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 19. janúar 2024 kl. 16:19

Gömlu karlarnir frá Grindavík halda sinni rútínu

Grindvískir heldri menn voru búnir að búa til þá skemmtilegu hefð, að hittast einu sinni í viku í Kvikunni í Grindavík og niðri á Bryggjunni á sunnudagsmorgnum. Síðan þeir þurftu að yfirgefa Grindavík eins og aðrir Grindvíkingar, hafa þeir verið að hittast á Kaffivagninum úti á Granda. Föstudagsmorguninn 19. janúar kl. níu, voru þeir mættir ásamt fleiri gestum, mest reykvískum heldri mönnum.

Grindvíkingarnir voru Ingvi Stefánsson, Bangsi í Bárunni, Óli Bæng og Sveinn Ísaksson. Listaguðinn Aðalgeir Jóhannsson eða Alli á Eyri, lét auðvitað bíða eftir sér eins og sönnum stjörnum sæmir og ekki leið á löngu þar til hann var farinn að fræða Reykvíkingana og aðra um staðhætti í Grindavík. „Ég veit ekki hversu kunnugir staðháttum þið eruð en þegar þið keyrið til Grindavíkur og eruð með hitaveituna og Bláa lónið á hægri hönd, þá er lítið fjall á vinstri hönd. Það er hraun sem hafði runnið að þessu fjalli og það er falleg kvos við rætur þessa fjalls, grasbali og þetta gras heitir Svartsengi. Þarna héldu Grindvíkingar árum saman útihátíð, sem gekk oft undir nafninu Svartsengishátíð. Margir Grindvíkingar, jafnvel flestir, halda að fjallið heiti Svartsengi en það rétta er að fjallið heitir Sílingafell og Hagafellið kemur í framhaldi af því. Hinum megin við veginn þar sem hitaveitan er, það heitir Illahraun og svæðið þar í kring heitir Baðsvellir. Svo er gaman frá því að segja að fjallið Þorbjörn sem er fyrir innan Baðsvelli, er með klof í toppnum sem heitir Þjófagjá. Þarna voru útilegumenn í gamla daga og stórbændurnir í Grindavík gerðu út leiðangur, sendu syni sína og plöntuðu þeim inn í hóp útilegumannanna. Þegar útilegumennirnir fóru svo á Baðsvelli til að baða sig, komu bændasynirnir, bundu ermar og skálmar fata útilegumannanna, sóttu svo liðsstyrk til Grindavíkur sem gómuðu útilegumennina. Þeir tóku þá hengdu þá í Gálgakletti sem er í Hagafelli. Þetta er ein margra grindvískra þjóðsagna.“

Þeir eru fáir eins miklir Grindvíkingar og Alli og hann ætlar sér að hafa glasið hálffullt en ekki -tómt og stefnir sem fyrst til Grindavíkur. „Ég er kannski svona barnalegur en ég trúi því að við verðum flutt aftur heim í sumar,“ sagði Alli að lokum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
Bangsi í Bárunni, Svenni Ísaks og Óli Bæng, náðu að leysa hluta heimsmálanna.