Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Gömlu hallærislegu skátagildin alltaf best
Fimmtudagur 19. apríl 2012 kl. 10:12

Gömlu hallærislegu skátagildin alltaf best



Vilborg Norðdal félagsforingi Heiðabúa, skátafélags Keflavíkur segir markvisst starf vera í gangi þó að það sé ekki jafn mikið fólk í skátunum og tíðkaðist hér áður fyrr. „Það hefur fækkað í félaginu en við höldum okkar markaðshlutdeild ef hægt er að orða það þannig. Í skátunum eru krakkar frá 7-8 ára fram á unglingsárin og að sögn Vilborgar hefur skátastarfið breyst undanfarin ár, áður var þetta mjög mikið byggt á jafningjafræðslu. „Foringjar voru kannski 1-2 árum eldri en krakkarnir sem þau voru með í fræðslu. Allir foringjar verða að vera 18 ára eða eldri þannig að við erum að keyra á krökkum sem eru 18 ára og eldri. Að því leyti fækkar í hópnum, þetta er orðið miklu meira uppeldisstarf. Nú erum við komin með bækur, alvöru námsefni, handbækur sem við höfum okkur til stuðnings. Við vinnum eftir því að „við lærum með því að gera“ okkur finnst krakkarnir læra meira þannig.

Breyttist skátastarfið með tölvuvæðingu og nútímatækni?
Við notum tölvutæknina í okkar starfi, en það er ennþá sama uppbyggingin á fundum. Leikir, söngur, fjör og skemmtileg verkefni. Svo eru ferðalög og mót sem krakkarnir eru alltaf spenntir fyrir.

Vita krakkar almennt af skátastarfinu?
Við reynum að kynna okkur en höfum kannski ekki verið alveg nógu dugleg. Við virðumst kannski stundum eins og lokuð „klíka“ og við höfum rætt að við þurfum að opna okkur meira. Krakkar sem koma hafa oft tengingu við annan skáta eða fjölskyldumeðlimir hafa verið í starfinu. Það er ekki svo mikið um að krakkar komi til okkar alveg að eigin frumkvæði.

Þyrfti að nútímavæða skátana?
„Já og það hefur verið gert að einhverju leyti, t.d. var búningum breytt til þess að gera þá klæðilegri og nútímalegri án þess þó að missa marks. Við erum samt hörð á því að halda í gildin okkar, t.d. voru þau gildi sem fólki fannst mikilvægust á þjóðfundinum sem haldinn var eftir hrun glettilega lík skátalögunum. Gömlu góðu hallærislegu gildin voru allt í einu eitthvað sem fólk vildi. Ég fékk að heyra það oft á mínum vinnustað góðlátlega að ég væri gamaldags í hugsun, algjör skáti. Ég tók því þó bara eins og hrósi, við og okkar gildi breyttumst ekkert þó það væri þensla í þjóðfélaginu.“
Skátalögin eru bara gömlu góðu heiðvirðu gildin. Markmið og kjörorð skáta eru hjálpsemi og náungakærleikur. Skátahreyfingin er stærsta friðarhreyfing í heimi án þess að vera stofnuð sem slík. „Það geta allir verið með í skátahreyfingunni, okkur er alveg sama hvaðan fólk kemur, hvernig það lítur út eða á hvað það trúir. Í skátunum erum við öll jöfn, enginn er á varamannabekknum og enginn betri en annar.“

Fermingarskeytin eru eina fjáröflun Heiðabúa. En hver sveit stendur fyrir smærri fjáröflunum þegar við á og eitthvað stendur kannski til. Vilborg segir skeytunum fara fækkandi en þau séu þó ekki horfin af sjónarsviðinu. „Fermingartímabilið er að lengjast svo mikið nú til dags. Við berum skeytin sjálf í hús en starfið er allt í sjálfboðavinnu.“

Vilborg er bjartsýn á framtíðina í skátahreyfingunni. Heiðabúar er 75 ára gamalt félag og eitt elsta skátafélag landsins.
„Skátastarfið er skemmtilegt fyrir sérstöðuna, þ.e.a.s. þú nýtur þín sem einstaklingur í hópi, þú færð að gera allt sjálfur. Það fá allir sama tækifærið, mjög ákveðin í að hafa algjört jafnræði á milli allra. Við fáum t.d. krakka til okkar sem hafa jafnvel lent í einelti og eru niðurbrotin en blómstra svo hjá okkur. Í okkar röðum líðst ekki einelti, það er kæft í fæðingu.“
Sjálf byrjaði Vilborg í skátunum sem barn en svo varð hún of töff fyrir þetta á unglingsárunum eins og gerist fyrir marga. „Ég er alin upp við þessa hugmynd, mamma er skáti og stofnaði skátafélag sem er öflugt félag í Garðabæ. Þegar maður fullorðnast og fer að móta sín eigin gildi þá falla mín gildi að gildum skátahreyfingarinnar. Miðjubarnið mitt byrjaði svo allt í einu í skátunum, ég hafði ekki hvatt hann til þess en hann ákvað að mæta á fund eftir að hafa séð auglýsingu í skólanum. Þannig dregst ég inn í þetta aftur, sem móðir.“

Á sumardaginn fyrsta eru skátarnir ávallt með skrúðgöngu. Skátahreyfingin hefur hálfpartinn tekið þennan dag í fóstur þar sem skátahreyfingin er verndari íslenska fánans. „Við göngum til kirkju á deginum frá skátaheimilinu og þar er skátamessa og síðan er grillveisla fyrir meðlimi og fjölskyldu,“ segir Vilborg að lokum en skrúðganga hefst núna klukkan 11:00 frá skátahúsinu við Hringbraut.

Mynd úr safni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024