Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Góður húmor
Laugardagur 7. desember 2013 kl. 14:07

Góður húmor

Um síðustu helgi ákváðum við fjölskyldan að skella okkur í leikhús og efst á listanum var auðvitað Leikfélag Keflavíkur en þar var verið að sýna leikritið ,,Hamagangur í hellinum“. Og ekki varð maður fyrir vonbrigðum frekar en fyrri daginn þegar þetta öfluga leikhús tekur til hendinni.

Í leikritinu er verið að skyggnast inn í hversdagslíf og jólaundirbúninginn hjá þeim Grýlu og Leppalúða ásamt jólasveinunum, jólakettinum og fleirum. Tæknin hafði greinilega rutt sér til rúms hjá þessari vinsælu fjölskyldu en meðlimir hennar virtust þó vera misgóðir í að tileinka sér hana. Ekki þori ég að segja meira til þess að skemma ekki fyrir þeim sem eiga eftir að sjá leikritið en í gegnum það allt var fullt af góðum húmor, útúrsnúningum og uppásnúningum í textum og lögum í leikritinu ásamt góðum boðskap í aðdraganda jólanna.  Leikararnir stóðu sig með miklum ágætum bæði í söng og leik. Sumir eru auðvitað vanari en aðrir en allt kom þetta vel út í heildina.

Það er alltaf jafn hátíðleg og góð tilfinning að koma í leikhús. Bæði er það spennan sem fylgir því að sjá nýtt leikrit og sjá hvernig tekst til en einnig hugsunin um þá gríðarlegu vinnu sem liggur í uppsetningu á leikritum.

Leikfélag Keflavíkur er áhugamannaleikhús og því fær enginn greitt fyrir þá vinnu sem þeir leggja fram sem leikarar eða baksviðs. Hér var því fólk að sýna okkur leikrit sem það hafði æft mánuðum saman auk þess að mæta í vinnu til þess að við hin gætum gert okkur dagamun. Það má því í raun segja að það sé siðferðileg skylda okkar hinna að mæta á sýningar sem þessar og styðja þannig við menningarstarf í sveitarfélaginu. Ég fer reyndar aldrei í leikhús vegna einhverrar skyldu. Mér finnst bara alltaf svo rosalega gaman að fara í leikhús en ekki síst í aðdraganda jóla.

Njótið aðventunnar,
Sölvi Rafn Rafnsson


 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024