Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Góður grunnur út í lífið
Eva Björk tekur við blómvendi úr höndum Kjartans Más Kjartanssonar, bæjarstjóra Reykjanesbæjar, við opnun Friðheima. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 31. mars 2024 kl. 06:05

Góður grunnur út í lífið

Friðheimar voru formlega opnaðir fimmtudaginn 29. febrúar síðastliðinn en það er deild innan Háaleitisskóla í Reykjanesbæ fyrir börn í leit að alþjóðlegri vernd. Eva Björk Sveinsdóttir er deildarstjóri Friðheima en hún hefur mikla reynslu í stjórnun í skólakerfinu, var skólastjóri Gerðaskóla í sjö ár og þar á undan deildarstjóri í nítján ár í Myllubakkaskóla. Víkurfréttir spurðu hana nánar út í starfsemi Friðheima.

Friðþjófur Helgi Karlsson, skólastjóri Háaleitisskóla, bauð viðstadda velkomna og sagði nokkur orð.

„Þegar ég hætti í Gerðaskóla ætlaði ég í raun að prófa að gera eitthvað allt annað – en einhvern veginn sækir skólinn alltaf í mann og mér fannst þetta verkefni svo skemmtilegt þannig að ég gat eiginlega ekki sagt nei við því,“ segir Eva Björk Sveinsdóttir sem stýrir Friðheimum en hún kom ekki að verkefninu fyrr en í lok ágúst. „Þegar ég kom inn var verið að gera skólastofurnar og verið að reyna að standsetja allt. Það var í rauninni alveg ótrúlegt hvað það tók stuttan tíma og við byrjuðum með krakkana 18. október síðastliðinn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í byrjun voru rúmlega áttatíu nemendur en það var vitað að nemendur yrði alltaf á milli áttatíu og hundrað. „Og það hefur verið þannig. Það eru búnir að vera 96, 97 nemendur eftir jól, þetta er dágóður fjöldi. Þetta eru börn í leit að alþjóðlegri vernd en eru í smá biðstöðu ásamt fjölskyldum sínum. Þarna erum við að grípa inn í með því að bjóða upp á þetta úrræði.

„Fyrst þegar við byrjuðum vorum við bara með fjórar kennslustofur og vorum þá með þau yngri á morgnana og eldri eftir hádegi. Vorum að bjóða upp á kennslu frá níu til ellefu og tólf til tvö. Svo fengum við salinn 1. febrúar og þá gátum við lengt skóladaginn, þannig að nú eru nemendur að fá fimm kennslustundir á dag.

Eins og ég hef sagt þá er ekkert mál að skipuleggja heilan skóla en þarna erum við með börn sem eru á svo mismunandi stað. Það er smá flækjustig þegar sumir eru búnir að vera í fjóra, fimm mánuði – svo kemur nýtt barn. Hvernig eigum við að hafa skipulagið? Þannig að við ákváðum að vera með mismunandi þemu sem rúllar í tvær vikur og svo tekur nýtt við. Núna erum við t.d. að klára varðandi dýr en svo eftir páska erum við komin hringinn og þá tökum við fyrir um mig og fjölskyldan, þannig að orðaforðinn snýst um það í tvær vikur og svo förum við í nýtt. Svona rúllar þetta í átta þemu og þá eru að mestu komnir nýir krakkar þegar við byrjum upp á nýtt.“

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hélt tölu við opnunina.
Mikill fjöldivar samankominn við tilefnið og fengu gestir að skoða húsnæðið eftir formlega opnun.

Byggja góðan grunn út í lífið

Eva segir að megináherslan sé lögð á íslenskukennslu og að auka orðaforðann – og að kenna börnunum á íslenskt skólakerfi.

„Við skiptum því hvað við gerum á sal og hvað við gerum í skólastofunum. Við kennum íslensku og stærðfræði í skólastofunum og í salnum erum við að leggja áherslu á félagsfærni, list- og verkgreinar og hreyfingu, það eru áherslurnar,“ segir Eva. „Það væri voðalega gott að geta komist hér í íþróttahúsið en það er stútfullt. Þannig að við höfum ekki verið með neina tíma þar en vonandi getum við verið með hreyfingu úti með vorinu.“

„Við erum mikið að nýta það sem við getum nýtt og ætlum svo að byrja með meira samstarf inn í skólann. Þau eru að sækja tíma í tónmennt og bókasafnið skólanum, starfsmenn á bókasafninu eru að lesa fyrir þau. Þetta verkefni er núna búið að standa í fimm mánuði og við erum að þróa það jafnt og þétt – sjáum hvað er í boði í dag og hverju við getum bætt við.“

Er þá gengið út frá því að þessi börn setjist að hérna, að þetta sé ekki bara tímabundið úrræði og krakkarnir nái að aðlagast íslensku samfélagi?

„Já, við göngum út frá því en eins og ég segi þá erum við að þjálfa þau í félagsfærni þannig að þau styrkist í sinni tilveru. Hvort sem þau fara svo til baka eða hvað verður, að við séum að bjóða upp á góðan grunn út í lífið.

Þetta er í raun hugsað sem tímabundið úrræði á meðan þessi staða er, að fjölskyldur bíða eftir að fá kennitölur og komast inn í kerfið, svo þegar börnin eru komin til að vera fara þau út í skólana – og þá erum við vonandi búin að gera góða hluti og höfum náð að undirbúa þau vel. Að þau séu komin með grunnorðaforða og eru þá sterkari að byrja í skólanum.“

Teikningar krakkanna vöktu mikla athygli viðstaddra.

Ólíkir menningarheimar

Þetta eru börn sem koma frá hinum og þessum löndum, hvernig gengur að blanda þessum ólíku menningarhópum öllum saman?

„Það getur alveg verið áskorun, það er ýmislegt ólíkt en það hefur gengið mjög vel hingað til. Börnin eru mikið móttækilegri en við og það er ekki mikið um uppákomur svo þetta fer allt saman vel af stað.“

Börnin eru í misjöfnu ásigkomulagi þegar þau koma hingað og Vinnumálastofnun hefur félagsráðgjafa á sínum snærum sem sinna fjölskyldunum þegar þau koma til landsins. Eva segir að þau geri sitt besta til að hjálpa börnunum og byggja upp traust. „Að byggja upp traust meðal nemenda og þeir geti leitað til starfsfólksins.“

Í Friðheimum er gert ráð fyrir tuttugu stöðugildum en aðeins hefur tekist að fylla í fimmtán þeirra. Næsta spurning til Evu er hvernig samskiptin gangi við krakkana og hvort tungumálin séu engin fyrirstaða. „Jú, það er mikil leikræn tjáning í kennslunni,“ segir hún og hlær. „Við erum rosalega heppin með starfsfólk. Það eru tvær sem eru spænskumælandi, ein sem er kennari og einn stuðningsfulltrúi, svo erum við með kennara sem talar arabísku og svo eru tveir sem babla aðeins á spænsku. Auðvitað er þetta svolítið flókið því það tala ekki allir kennararnir spænsku en yfir áttatíu prósent nemenda talar spænsku og maður veit ekki alltaf hvað er að fara fram á milli krakkanna – en með reynslunni þá getur maður lesið í látbragðið, hvort verið sé að segja eitthvað skemmtilegt eða leiðinlegt. Það er svona það helsta sem við erum að upplifa, við vitum stundum ekki alveg hvað fer þeirra á milli – og það er áskorun,“ sagði Eva að lokum.

Aðstaðan var gerð tilbúin á ótrúlega stuttum tíma, byrjað var á framkvæmdum í ágúst og kennsla hófst 18. október.