Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Fimmtudagur 2. september 1999 kl. 23:32

GÓÐUR BÆR BETRI - OPIÐ BRÉF TIL BÆJARSTJÓRNAR

Orð eru til alls fyrst. Það sannaðist þegar bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ ákváðu að fara af stað með forvarnarátak til þess að bæta bæjarbraginn. Það eru rúmlega tvö ár síðan átakinu var hleypt úr vör. Það er ekki annað að sjá en orð hafi mikinn mátt og þau geti líka tekið á sig lögun. Fyrst er að láta sig dreyma um eitthvað, síðan að færa drauminn í orð og þá er ekkert annað eftir en að sjá hvernig draumurinn rætist. Einhverjir fengu þessa hugmynd og ræddu málin. Þeir hefðu getað kæft hugmyndina í fæðingu, bara vegna þess að það voru ekki aðrir bæir með svona átak í gangi. Auðvitað voru aðilar, sem trúðu ekki á að átakinu tækist að hafa áhrif á hugarfar bæjarbúa og vekja þá til umhugsunar. Það eru alltaf einhverjir, sem trúa aldrei á góða hluti. Sem betur fer þá fengu bjartsýnu raddirnar að hljóma í bænum og átakið leit dagsins ljós og fékk yfirskriftina; REYKJANESBÆR Á RÉTTU RÓLI. Í dag kannast allir bæjarbúar við átakið. Fólk finnur hvernig það hefur aukið áhuga almennings á því að bæta umhverfi sitt, bæði heima hjá sér og í bæjarfélaginu. Fegrun bæjarins hefur tekist allvel og gamli bærinn er núna fegurri en nokkru sinni fyrr. Hinar ýmsu nefndir hafa verið stofnaðar, sem snerta börnin okkar, eldra fólkið, menningarlífið o.fl. o.fl. Unnið hefur verið markvisst með unglinga í ýmis konar forvarnarstarfi. Fræðilegir fyrirlestrar hafa verið haldnir. Stórátak í skólamálum kemur til framkvæmda nú í haust. Kirkjan hefur einnig komið með þá nýbreytni að bjóða upp á kyrrðar- og bænastundir á fimmtudögum, fræðsluerindi um fjölskylduna og verið með Alfa námskeið. Það er svo ótalmargt jákvætt sem gerst hefur sem sýnir það og sannar að átakið var þarft. Það hefur vakið marga til þess að hafa ákveðnari skoðanir á því, að það er í valdi bæjarbúa að hafa áhrif á þróun bæjarlífsins. Við finnum að góðir hlutir eru að gerast út um allan bæ. Átakið hefur haft þau áhrif á foreldra að þeir vilja hafa meira um uppeldi barna sinna að segja. Þeir samræma betur útivistarreglur barnanna og hafa meiri aga. Foreldraröltið er gott dæmi um það. Lögreglan hefur verið með stórátak í eftirliti með útivistartímum barnanna í bænum. Sumir foreldrar hvetja börnin markvisst til íþróttaiðkana og leyfa þeim að taka þátt í alls konar uppbyggjandi starfi. Margir foreldrar eru óþreytandi í forvarnarstarfinu. Það hafa verið umræður um að auka þátttöku stúlkna í íþróttastarfinu hér í bæ. Það hafa líka farið fram umræður um það hvers vegna stúlkurnar fara sjaldnar í framhaldsnám og hafi lakari sjálfsmynd en stúlkur annars staðar á landinu. Ýmsir framámenn í bæjarstjórn, sem duglegir eru að skrifa í bæjarblöðin, hafa bent á nauðsyn þess að hvetja stúlkurnar meira. Þeir benda á að skapa þurfi fleiri valkosti fyrir þær til þess að vekja áhuga þeirra, t.d. á íþróttum. Þegar gott fyrirtæki er rekið þá er stefna þess skýr. Skýr stefnumótun er allt sem þarf til þess að átakið í bænum okkar nái að blómstra. Bæjaryfirvöld senda almenningi skýr skilaboð með þessu frábæra átaki að góður bær verði betri. Unnið er að því á öllum vígstöðvum og í mörgum nefndum. Við erum bjartsýn á að margt eigi eftir að breytast til hins betra á næstu mánuðum. Við getum öll verið stolt af bænum okkar og stefnu bæjaryfirvalda í þessum efnum. Með þessu átaki geta börnin okkar upplifað öruggt umhverfi og notið þess að alast hér upp. Við treystum því að góðu öflin ráði hér ríkjum. Hér fær engin vafasöm starfsemi að festa rætur. Það er hugsað til framtíðar á öllum sviðum. Leiðarljósið er þess vegna bjart. Gott og fjölbreytt heilbrigt mannlíf bíður barna okkar. Með vinsemd og virðingu, Björgvin Skarphéðinsson, Einar Guðberg, Elín M. Hjelm, Friðjón Einarsson, Gréta Lind Árnadóttir, Guðlaug H. Halldórsdóttir, Guðrún Ólafsdóttir, Hafrún Kristinsdóttir, Helga Margrét Guðmundsdóttir, Helgi Guðleifsson, Laufey G. Jóhannesdóttir, Jón Ólafur Árnason, Ólafía Ólafsdóttir, Ólöf H. Gunnarsdóttir, Marta Eiríksdóttir, Sigurþór Stefánsson og Skúli Ágústsson.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024