Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Góður árangur af foreldrafærninámskeiðum
Þriðjudagur 17. desember 2013 kl. 08:50

Góður árangur af foreldrafærninámskeiðum

Að undanförnu hefur Grindavíkurbær undirbúið afar áhugavert verkefni í forvarnarmálum sem nefnist Foreldrafærni. Það hefur að markmiði að bæta hegðun og samskipti barna og efla foreldra í hlutverki sínu.
Gengið er út frá heildstæðri nálgun þannig að PMT aðferðin, uppbyggingastefnan og önnur verkfæri sem verið er að nota innan skólakerfisins vinni saman og þær aðferðir verði nýttar sem helst gagnast hverjum og einum nemanda og fjölskyldu hans.

Uppeldi til ábyrgðar - færni til framtíðar

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Lagt er upp með ákveðinn grunn sem felst í að bjóða foreldrum upp á námskeið um uppeldi barna helst á meðan börn eru á leikskólaaldri. Það er námskeiðið, uppeldi til ábyrgðar - færni til framtíðar. Grindavíkurbær hefur menntað kennara á Króki og á skólaskrifstofu til að sinna námskeiðahaldi. Þar ofan á bætist við önnur almenn þjónusta sem felur í sér stuðning við fjölskyldur í gegnum leik- og grunnskóla. Þar nýtist uppbyggingastefnan, ART þjálfun og PMT foreldrafærni. Í leik- og grunnskólum eru menntaðir fagaðilar í fyrrgreindum aðferðum.

Bætt hegðun og samskipti

Markmiðið er að foreldrar fái ráðgjöf til að takast á við hegðun barna. Ráðgjafar eru þjálfaðir innan hvers skóla fyrir sig og geta vísað málum áfram í sértækari þjónustu ef þörf er á. Sértæk þjónusta er foreldranámskeið fyrir ákveðinn hóp foreldra sem vill breyta hegðun barna sinna og bæta samskipti innan fjölskyldunnar en hefur ekki náð árangri í almennri þjónustu. Annað sértækt úrræði er PMT meðferð þar sem unnið er með einstakar fjölskyldur til að bæta samskiptin og hegðun barns. Meðferð er hluti af öðrum sértækum úrræðum sveitarfélagsins s.s. í barnavernd og skóla-þjónustu.

PMT - Parent Management Training

PMT stendur fyrir „Parent Management Training" og er aðferð fyrir foreldra til að bæta hegðun og samskipti barna sinna. Aðferðin byggir á félagsmótunar- og félagsnámskenningu Gerald Pattersons (Social Interaction Theory) um þróun andfélagslegrar hegðunar. Gengið er út frá því að barnið læri hegðun í gegnum tengsl sín og í samskiptum við aðra. Flestir þekkja að börn eru mismunandi krefjandi. Krefjandi börn eru líklegri til að mæta neikvæðum viðbrögðum eða uppgjöf frá foreldrum og öðrum í umhverfinu.

Jákvæð áhrif á samskipti og frammistöðu

Utanaðkomandi þættir, s.s. veikindi, fjárhags-áhyggjur o.fl., eru líka oft til staðar sem minnka líkur á því að foreldrar bregðist við krefjandi barni með viðeigandi hætti. Þannig getur myndast erfiður vítahringur í samskiptum og haft í för með sér alvarlega hegðunarerfiðleika hjá börnum. Það er forvörn í því að taka á hegðunarerfiðleikum sem fyrst og hafa rannsóknir sýnt að hægt er að ná mjög góðum árangi með PMT í því skyni að bæta jákvæð samskipti innan fjölskyldunnar og á frammistöðu barns í námi.

Foreldrar og verkfærakassi PMT
Þar sem foreldrar eru mikilvægustu kennarar barna sinna er áhersla lögð á ítarlega vinnu með foreldrunum og gert ráð fyrir sveigjanleika til að mæta þörfum hverrar fjölskyldu. Foreldrar fá aðstoð við að rjúfa þann vítahring sem hefur myndast með því að tileinka sér nýjar leiðir í uppeldi. Unnið er með ákveðna grunnþætti til að stuðla að jákvæðri hegðun barnsins og draga úr hegðunarvanda. Í raun er um að ræða ákveðin verkfæri sem eru: Fyrirmæli og jákvæð samskipti við barnið, notkun hvatningar við kennslu nýrrar hegðunar, að setja mörk til að draga úr og stöðva óæskilega hegðun, lausn vanda og uppbyggilegar aðferðir í samskiptum innan fjölskyldu, eftirlit með hegðun barns innan og utan heimilis, tengsl við skólakerfið og stjórn neikvæðra tilfinninga.

Góður árangur
Samkvæmt rannsóknum (Oregon Social Learning Center) á árangri PMT er líklegt að í um 70% tilvika minnka hegðunarerfiðleikar barns á heimili. Sömu rannsóknir sýna jákvæð áhrif á samskipti innan fjölskyldunnar og á frammistöðu barns í námi. Það er forvörn falin í því að taka á hegðunarerfiðleikum sem fyrst. Forvörnin felst í að koma í veg fyrir andfélagslega hegðun sem getur haft í för með sér áfengis- og vímuefnanotkun samhliða afbrotum. Einnig er lýðheilsuleg forvörn í því að bæta samskipti innan samfélagsins í heild.