Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Góður andi í Hvítahúsinu
Um sannkallað fjölskyldufyrirtæki er að ræða en unglingsstúlkurnar tvær á heimilinu eru duglegar að hjálpa til við reksturinn.
Sunnudagur 29. júní 2014 kl. 11:00

Góður andi í Hvítahúsinu

- Böðvar og Guðrún reka gistihús á besta stað á Akureyri

Hjónin Böðvar Kristjánsson og Guðrún Karitas Garðarsdóttir ákváðu fyrir skömmu að ráðast í rekstur gistiheimilis á Akureyri en þar í bæ hafa þau verið með annan fótinn um allnokkurt skeið. Böðvar er Keflvíkingur í húð og hár en körfuboltinn togaði hann norður á sínum tíma. Guðrún sem er Reykvíkingur bjó um árabil í Reykjanesbæ á árum áður.

„Það var bara ævintýramennska sem dró okkur út í þetta. Okkur langaði að prófa eitthvað nýtt,“ segir Guðrún í samtali við VF en þau hjónin höfðu talsvert verið að ferðast og lengi haft áhuga á ferðabransanum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Gistihúsið kallast Hvítahúsið en upphaflega var það nú bara grín hjá þeim hjónum. „Það átti vel við og við höfum haldið okkur við það, húsið er jú hvítt,“ segir Guðrún og hlær. „Ég vil þó síður að það sé svarað í símann „The White house,“ þegar útlendingarnir hringja, það er ekki alveg að ganga upp,“ bætir hún við hress í bragði. Um sannkallað fjölskyldufyrirtæki er að ræða en unglingsstúlkurnar tvær á heimilinu eru duglegar að hjálpa til. „Þannig gengur þetta upp en vissulega er þetta erilsamt og mikil binding sem fylgir þessu.“

Húsið er byggt árið 1946 og staðsett í eldri hluta Akureyrar á milli miðbæjar og sundlaugar. Sem sagt á besta stað í bænum. Þau Guðrún og Böðvar kunna ákaflega vel við sig fyrir norðan og hafa í nógu að snúast. „Það er ótrúlega fínt að vera á Akureyri. Sumrin geta verið svo ótrúlega góð hérna og á veturna hefur maður Hlíðarfjallið, svo finnst mér bara mjög stutt til höfuðborgarinnar, það er ekki mikið mál að skjótast suður,“ segir Guðrún. „Ég hugsa að maður sé ekki á leiðinni „heim.“ Ég kann mjög vel við mig hérna,“ segir Böðvar sem þó fylgist vel með gangi mála á Suðurnesjunum.

Mynda gott teymi

„Við keyptum húsið gagngert til þess að fara út í þennan rekstur. Við vildum finna hús sem gæti hentað sem húsnæði fyrir okkur og sem gistihús.“ Böðvar er húsasmíðameistari og byggingarfræðingur og hann tók að sér breytingar á húsnæðinu, svo það hentaði sem gistirými. „Guðrún er að koma með þessar hugmyndir og svo segir hún mér bara hvað ég á að smíða. Við náum vel saman í vinnu,“ segir Böðvar. Guðrún er viðskiptafræðingur svo hún tók bókhaldið að sér. „Þetta er fín blanda hjá okkur,“ segir Guðrún en þau Böðvar eru með mikið á sinni könnu þar sem Böðvar setti nýlega á laggirnar byggingafyrirtæki. Þannig að bæði eru þau í fullri vinnu og Guðrún heldur utan um bókhald fyrir þessi tvö litlu fjölskyldufyrirtæki auk þess að vera verslunarstjóri hjá Eymundsson. „Við reynum svo að fara í golf þess á milli, þannig að það er aldrei dauð stund,“ segir Guðrún.

Böðvar flutti upphaflega norður árið 1995 til þess að spila körfubolta með Þórsurum. Hann hefur svo alla tíð síðan verið viðloðinn körfuboltann og m.a. þjálfað um árabil. Nú hefur hann lagt körfuboltann til hliðar enda hefur gistibransinn farið vel af stað hjá þeim hjónum. „Við höfum fengið hlýlegar móttökur og fólki finnst vera góður andi í húsinu. Þetta hefur verið ákaflega skemmtilegt,“ segir Keflvíkingurinn. „Það er búið að vera miklu meira að gera en við gerðum ráð fyrir. Sumarið lítur rosalega vel út og þetta er búið að vera virkilega skemmtilegt. Hér hafa verið margir Íslendingar frá því við opnuðum í febrúar. Það er alltaf eitthvað um að vera á Akureyri,“ segir Guðrún. Hún segir Suðurnesjamenn hafa rekið inn nefið hjá þeim en hún vill sjá fleiri slíka. „Þetta er auðvitað eðalfólk, það er bara þannig,“ bætir hún við.

Smáatriðin eru oft stærstu atriðin

Hjónin hafa lagt áherslu á að fylgja stemmingu hússins (það er byggt 1946). Þau leggja upp með að finna gamla hluti og nota þá til að gera gistiheimilið hlýlegt og heimilislegt. Þetta mjatlast því inn því hver hlutur sem kemur inn er úthugsaður. Guðrún eyddi t.d. nóvember til janúar í að gera upp gamla stóla og borð. Bæði er það ódýr leið til að mubla upp eitt stykki gistiheimili nú og svo er það hlýlegt og umfram allt umhverfisvænt. Fatahengin koma svo úr Kjarnaskógi og hinni íslensku fjöru. Böðvar sá um að smíða bekki í setustofu sem og rúmgafla og náttborð. 

Böðvar var verkefnastjóri hjá stærsta byggingarverktaka á Akureyri en honum fannst sem hann væri staðnaður þar. Hann fór því að starfa sjálfstætt við verkefnastjórnun. „Síðan er ég beðinn um að stofna byggingarfyrirtæki ásamt kunningja mínum. Ég ákveð að láta slag standa. Það er mjög mikið að gera hérna í byggingarbransanum.“