Góður andi á Erlingskvöldi
Vel sótt Erlingskvöld var haldið í Bókasafni Reykjanesbæjar í síðustu viku þar sem þrír rithöfundar lásu upp úr nýjustu bókum sínum en áður en höfundum var hleypt að flutti djasssöngkonan Birta Rós Sigurjónsdóttir þrjú lög eftir Nina Simone og lék gítarleikarinn Sveinbjörn Ólafsson með henni. Birta mun halda tónleika til heiðurs Nina Simone næsta haust en þeir eru hluti af Tónleikaröð Ellýjar sem bókasafnið er samstarfsaðili að.
Ásmundur Friðriksson reið á vaðið og honum til fulltingis var Sigurður Friðriksson, Diddi Frissa. Þeir sögðu frá bók Ásmundar, Lífssaga Didda Frissa – öflugur til sjós og lands. Bókin segir frá æviferli Didda Frissa sem er þjóðsagnapersóna suður með sjó og var kominn til sjós tólf ára gamall. Fáir höfðu trú á honum, enda lítill skilningur á lesblindu, ofvirkni og athyglisbresti á þeim árum og á hverju ári var hann rekinn úr skólanum.
Næst var komið að Mörtu Eiríksdóttur en hún gaf út tvær bækur á síðasta ári, Ástin er hunangið í blómi lífsins og Tendraðu gyðjuna innra með þér. Marta las úr bókinni Ástin er hunangið í blómi lífsins sem er falleg ástarsaga og segir frá íslenskri konu sem fær nóg af drykkfelldum sambýlismanni sínum og ákveður að flytja til Noregs á vit ævintýranna þar sem hún ræður sig á bóndabæ hátt uppi í fjöllum hjá gömlum hjónum.
Einn vinsælasti höfundur landsins, Auður Jónsdóttir, sló botninn í dagskrá kvöldsins en hún las upp úr bók sinni Högni sem er hárbeitt og bráðfyndin samtímasaga um Högna sem leitar svölunar í faðmi kvenna á börum bæjarins eftir erfiðan skilnað og verður skyndilega umdeildasti maður landsins og er knúinn til að horfast í augu við sjálfan sig.
Auður er margverðlaunaður höfundur. Fyrsta skáldsaga hennar, Stjórnlaus lukka, kom út árið 1998 og var tilnefnd var til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Síðan þá hefur hún sent frá sér fjölda verka, bæði fyrir börn og fullorðna, og hlotið fjölmargar viðurkenningar fyrir verk sín og tvívegis verið tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.
Það var vel við hæfi að Auður skildi ljúka dagskránni en hún á ekki langt að sækja skáldagáfuna og tengist Erlingskvöldi á vissan hátt því upphafið að Erlingskvöldum má rekja til þess þegar Erlingur Jónsson, fyrrverandi bæjarlistamaður Keflavíkur, gaf bókasafninu listaverkið Laxnessfjöðrin árið 2002. Sama ár skrifaði Auður bókina Skrýtnastur er maður sjálfur um afa sinn, Halldór Laxness. Bókin hlaut viðurkenningu Upplýsingar, félags íslenskra bókasafnsfræðinga, sem besta fræðibók fyr-ir börn sem út kom á ár-inu 2002.
Eftir upplesturinn spjölluðu höfundar og gestir saman yfir kaffi og konfekti.