Góðir skór fara með þig á góða staði
Skóbúðin 20 ára
Skóbúðin í Keflavík hefur verið fólki bæjarins til halds og traust í tuttugu ár en hún er eina skóbúðin á Suðurnesjum. Þær Steinunn Ýr Þorsteinsdóttir og Dalrós Jóhannsdóttir standa þar vaktina nánast alla daga. „Skóbúðin sem hafði verið í Keflavík var lokað og engin skóbúð var á svæðinu í þó nokkurn tíma þar til við opnuðum,“ segir Steinunn en hún er eiginkona Hermanns Helgasonar. Hann sá tækifæri í því að opna skóbúð á svæðinu árið 2002.
„Hermann var búinn að vera að vinna í heildsölu í Reykjavík sem seldi skó, hann sá tækifæri í að opna skóbúð í Reykjanesbæ og ákvað að stökkva á það,“ segir hún. Hermann vann í búðinni fyrstu tvö árin en hélt svo aftur til Reykjavíkur í vinnu og var þá ráðinn verslunarstjóri til að sjá um daglegan rekstur. Tíu árum seinna, eða árið 2012, urðu breytingar innan fyrirtækisins en þá komu þau Dalrós Jóhannsdóttir og Gunnlaugur Þór Ævarsson inn í reksturinn og sá Dalrós þá alfarið um daglegan rekstur búðarinnar. Steinunn hafði árin á undan verið að vinna sem hárgreiðslukona en kom inn í reksturinn með Dalrósu árið 2016 og þær hafa verið saman í því síðan.
Steinunn segir helstu breytingarnar á þessum tuttugu árum vera fjölbreytileikann í bæjarfélaginu. „Mestu breytingarnar sem hafa orðið á þessum árum er hvað bæjarfélagið hefur stækkað mikið og orðið meira fjölþjóðasamfélag og auðvitað þróast maður með samfélaginu. Hvað varðar vöruúrvalið okkar tókum við inn frábæran ullarfatnað fyrir fullorðna frá Devold fyrir tveimur árum. Við leggjum mikla áherslu á að vera með eitthvað fyrir alla fjölskylduna, allar nauðsynjavörur svo sem stígvél, kuldaskó, gönguskó og sokka með smá tísku í bland,“ segir Steinunn. Aðspurð hvað stendur upp úr eftir allan þennan tíma segir Steinunn: „Það er klárlega hvað við eigum góða og trygga kúnna sem styðja okkur í rekstrinum alla daga, einnig reynum við eftir bestu getu að sinna stóru fyrirtækjunum á svæðinu sem er ómetanlegt í svona minni rekstri“ og bætir við: „Við leggjum okkur allar fram við að veita persónulega og góða þjónustu og höldum því vonandi áfram næstu tuttugu árin.“