Góðir gestir í Gerðaskóla
Vikuna 15.-21. maí voru nemendur 9. bekkjar Lem St. Skole í heimsókn í Gerðaskóla. Í þrjú ár hefur verið samstarf á milli þessara tveggja skóla og í því hafa verið gagnkvæmar heimsóknir elstu nemenda skólanna. En þó aðeins elstu nemendurnir hafi farið í heimsóknir þá hefur þess verið gætt að allir nemendur fái að taka þátt í heimsóknunum með ýmsu móti t.d. fái kynningar á því landi sem er í heimsókn eða syngi lög frá því.
Dagskrá heimsóknarinnar var stíf, mikið um ferðalög um Reykjanes og Suðurland. Það var farið á hestbak, í flúðasiglingu og það helsta tínt til sem Garðbúar héldu að gestirnir hefðu gaman af að sjá. Seinasta daginn voru heimaslóðir skoðaðar, farið í vitann og byggðasafnið, hefðbundinn fótbolta- og handboltaleikur, Ísland- Danmörk. Að lokum var slappað af og grillað við skólann.
Kl. 5:00 aðfaranótt sunnudags kvöddust svo hóparnir þar sem gestirnir áttu að mæta í flug. Tár féllu eins og venjulega enda góð vinátta myndast milli nemenda eftir að Gerðaskóli heimsótti Lem í september, nemendur hafa síðan verið í samskiptum í vetur og svo heimsóknin nú. Gagnkvæm kennaraskipti fóru fram í mars og eru því kennarahóparnir einnig farnir að þekkjast nokkuð vel.
Foreldrar taka vikan þátt í þessu samstarfi því allir gista á einkaheimilum. Einnig hafa þeir stutt nemendur í fjáröflun og haldið utan um þann þátt. Bæði sveitarfélögin, Garður og Ringkøbing kommune hafa styrkt þessi samskipti og verið afar jákvæð í tengslum við það. En Norræna ráðherranefndin hefur veitt hæsta peningastyrkinn. Öllum þessum aðilum er þakkað kærlega fyrir, án þeirra hefði þessi hluti skólastarfsins ekki geta orðið að veruleika.