Góðhjartaðir glókollar frá Grindavík
Styrktu fjölskyldu piltsins sem lést á Benidorm
Strákarnir í 3. flokk í fótboltanum hjá Grindavík létu sannarlega gott af sér leiða á dögunum. Þeir styrktu fjölskyldu 18 ára Íslendings sem lést í skemmtigarði á Benidorm á dögunum um 60.000 krónur. Grindvíkingar voru staddir í æfingaferð á Benidorm þegar slysið átti sér stað, en hópurinn hafði ætlað sér að fara í skemmtigarðinn Terra Mitica. Síðan vaknaði sú hugmynd hjá drengjunum að leggja það fé sem þeir höfðu safnað sér inn til þess að nota í skemmtigarðinum inn á reikning hjá aðstandendum drengsins.
Ægir Viktorsson þjálfari liðsins segist ánægður með þetta framtak hjá strákunum en þeir höfðu unnið hörðum höndum við fiskvinnslu til þess að safna sér fyrir ferðinni. „Það var öllum brugðið eftir að þetta kom upp en nokkur lið úr mótinu höfðu farið í skemmtigarðinn og m.a. í þetta tæki. Við settumst því niður og ræddum málin og þetta varð niðurstaðan. Strákarnir sýndu þessu mikinn skilning.“
Ægir er augljóslega með góðan hóp í höndunum en strákarnir vöktu mikla athygli á mótinu enda var allur hópurinn algjörlega ljóshærður. „Það er hefð fyrir því að allir sem fara á mótið aflita á sér hárið. Mæðurnar eru misánægðar með þetta,“ segir þjálfarinn og hlær. Ægir sjálfur hefur þurft að aflita á sér hárið sex sinnum enda eru fararstjórar og þjálfarar ekki undanskildir hefðinni.