Góðar súpur við þjóðveginn
Oddný Guðbjörg Harðardóttir og Eiríkur Hermannsson byrjuðu sumarfríið 2020 á ferðalagi um Snæfellsnes með hjólhýsið sitt. Þangað var farið bæði vegna þess að veðurspáin var góð fyrir það svæði og Oddnýju langaði að fara í rólegheitum um gömlu heimahagana. Þau gistu í hjólhýsinu á tjaldstæðinu í Stykkishólmi. Víkurfréttir fengu Oddnýju til að segja frá sumarfríi hennar og Eiríks og ferðalögum þeirra innanlands nú í sumar.
„Fjölskylda mín bjó á Gufuskálum á árunum 1959–1965. Pabbi vann þar við lóranstöðina. Við vorum fyrsta íslenska fjölskyldan sem settist þar að en fyrir voru m.a. indjánar sem reistu mastrið sem er hæsta mannvirki landsins og eitt af hæstu mannvirkjum í heimi, rúmir 400 metrar. Dagný, yngri systir mín, hélt því lengi fram að pabbi hefði reist mastrið aleinn en svo var nú ekki.
Við fórum marga afleggjara út frá aðalveginum um nesið sem leiða að alls konar minjum um fyrri tíð og fallegum sögulegum stöðum. Létum Djúpalónssand og Arnarstapa vera í þetta sinn enda fórum við þangað með gömlum skólafélögum í fyrra.
Frá Snæfellsnesi stoppuðum við eina nótt á Þingvöllum og fórum þaðan að Flúðum enda var þar spáð sól og blíðu. Á öllum okkar ferðum eru hjólin með í för. Frá Flúðum hjóluðum við út í Reykholt og heimsóttum Friðheima. Mátulegur hjólatúr, rétt um 23 km í allt.
Á Þingvöllum var sól en dálítið rok. Eiríkur var að ganga frá inni í hýsinu þegar ég ákvað að nýta tækifærið og setjast í sólina í skjóli bak við hjólhýsið. Ég hafði ekki setið lengi þegar það skondna gerðist að ég heyri konu kalla á manninn sinn. Hún sagði: „Þarna situr alþingismaður og sólar sig í stað þess að vera að vinna í þágu þjóðarinnar!“ Hún lagði áherslu á tvö síðustu orðin.
Við gerðumst túristar í Reykjavík í tvo daga og hjóluðum hring um borgina eftir góðum hjólastígum. Það er dásamlegt að hjóla um Laugardalinn og Fossvoginn þó það sé líka gaman að hjóla um miðbæinn. Þessi leið sem er bæði borg og sveit í senn er rúmir 20 km. Mæli með þessu og gott er að æja við Braggann fræga í Nauthólsvíkinni og fá sér kaldan drykk.
Síðan fórum við aftur af stað út á land. Byrjuðum á Hvammstanga og eigum örugglega eftir að koma þangað aftur. Hvammstangi kom skemmtilega á óvart með góðri aðstöðu á tjaldstæðinu, skógrækt og fallegu umhverfi.
Þaðan héldum við til Akureyrar og gistum á tjaldstæðinu í Hömrum við Kjarnaskóg. Það er alltaf gaman að koma til Akureyrar og frábært að hjóla inn í Eyjafjarðarsveit og heimsækja Jólahúsið og svo þaðan niður í bæ. Ætlunin var að halda lengra austur á bóginn en þá spáði kulda á norðausturlandi svo við pökkuðum saman eftir tvær nætur og héldum vestur í Búðardal. Eirík hafði dreymt um að heimsækja Haukadalinn þar sem hann var í sveit. Það eru komin svo mörg ár síðan að gamli bærinn að Núpi er rústir einar. Eiríkur sagði mér margar skemmtilegar sögur úr sveitinni, t.d. þegar hann hafði skipti á Obbu systur sinni fyrir bleika hryssu en af þeim kaupum varð reyndar aldrei. Einnig sagði hann mér frá miklum slag við mannýga rollu þar sem hann hafði betur með hjálp mjólkurbrúsa. Ég hafði reyndar heyrt allar sögurnar áður en það gerði ekkert til.“
– Hvaða viðkomustaðir voru áhugaverðastir? Eitthvað sem kom skemmtilega á óvart?
„Við heimsóttum sýndarveruleikasafnið á Sauðárkróki þar sem fjallað er um Sturlungaöldina og baráttuna um Ísland á 13. öld. Ég mæli með því að sem flestir tíu ára og eldri skoði safnið og taki þátt í Örlygsstaðabardaga í gegnum sýndarveruleika. Ég var frekar treg til að setja á mig búnaðinn sem leiddi mig inn í bardagann en þegar bardaginn var hafinn stóð ekki á mér að kasta grjóti um leið og ég varði mig með skildi og greip spjót til að yfirbuga andstæðinga. Alveg frábær upplifun og þessi hluti Íslandssögunnar gleymist vart eftir þessa safnaferð.
Einnig fórum við í Vínlandssetrið í Búðardal. Það segir frá Eiríki rauða, Leifi heppna, kvenhetjunni Guðríði Þorbjarnardóttur og landkönnun norrænna manna í Vesturheimi. Sagan er sögð og gestir fylgjast með í gegnum heyrnartæki og færa sig eftir sögusviðið sem gert er lifandi með haganlegu handverki. Mjög skemmtilegt og fróðlegt að heimsækja þetta safn.
Við þræddum ýmsa góða matsölustaði á ferðalögunum en upp úr standa súpurnar. Ég mæli sérstaklega með fiskisúpunni á Gilbakka á Hellisandi þar sem Keflvíkingurinn Anna Þóra Böðvarsdóttir er vertinn en einnig með tómatsúpunni í Friðheimum í Reykholti og sveppasúpunni hjá Flúðasveppum. Afar góð hádegishressing á öllum stöðunum.“
– Hefur þú ferðast mikið innanlands?
„Við höfum á undanförnum árum ferðast mikið innanlands og farið um nánast land allt. Við áttum ágætt fellihýsi í mörg ár en undanfarin þrjú sumur höfum við átt hjólhýsi sem við notum eins mikið og kostur er. Landið okkar er svo fallegt og alltaf gaman að ferðast um Ísland, einkum í góðu veðri.
Strax eftir verslunarmannahelgi áttum við frábæra daga í Borgarfirði með gömlum vinum til rúmlega 40 ára. Sá hópur kynntist í aðfaranámi Kennaraháskóla Íslands og hefur margt brallað um dagana. Í þetta skipti var óvenjurólegt yfir hópnum en húsráðendur voru búin að skipuleggja frábæra gönguferð um Jafnaskarðsskóg (sem ég kýs að kalla jafnaðarmannaskóg). Þangað hafði ég aldrei komið og vissi hreinlega ekki um en þessi skógur er alger perla. Þetta voru yndislegir dagar með yndislegum vinum.
Um síðustu helgi var árleg útilega Söngsveitarinnar Víkinga, sem Eiríkur maðurinn minn tilheyrir, á Laugarlandi í Holtum. Það er skemmst frá því að segja að aldrei hef ég verið í blautari útilegu. Félagsskapurinn var frábær eins og alltaf en mér fannst rigningin ekki góð.“
– Áttu þér uppáhaldsstað sem þú sækir oft eða er eitthvað sem þig langar virkilega að skoða?
„Ég veit ekki hvort ég get talað um sérstakan uppáhaldsstað en Þakgil, Kirkjubæjarklaustur og Ásbyrgi koma þó upp í hugann. Svo erum við að láta okkur dreyma um að komast inn í Landmannahelli og Landmannalaugar áður en ágúst er liðinn en þangað hef ég ekki komið mjög lengi. Vonandi tekst það.“
– Hvernig er COVID-19 ástandið að leggjast í þig um þessar mundir og hverjar finnst þér horfurnar vera inn í haustið og veturinn?
„Veiran er hættuleg og við verðum að gera allt sem við getum til að halda henni niðri. Gerum kröfur til okkar sjálfra með persónulegu sóttvörnunum og svo til stjórnvalda um að taka upplýstar og góðar ákvarðanir um allt sem varðar heilsu landsmanna og efnahag. Ég hef miklar áhyggjur af einmitt heilsu fólks og afkomu þeirra sem misst hafa vinnuna en ekki síður af börnum og ungmennum ef skólahald fer úr skorðum. Við gætum verið að kljást við langvarandi félagslegar og efnahagslegar afleiðingar ef skólahald fer mikið úr skorðum í vetur. Stjórnvöld verða að taka ákvarðanir sem treysta hagsmuni almennings frá öllum hliðum. Það verður krefjandi en undir þeim kröfum verða stjórnvöld að standa.“