Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Góð tilfinning að reima á sig hlaupaskóna eftir vinnu
Elfa Hrund hefur hlaupið reglulega frá árinu 2006.
Sunnudagur 29. maí 2016 kl. 06:00

Góð tilfinning að reima á sig hlaupaskóna eftir vinnu

„Það sem mér finnst skemmtilegast við hlaupin er útiveran og að hlaupa með félögunum. Það er mjög góð tilfinning að reima á sig skóna að loknum vinnudegi og taka góða hlaupaæfingu,“ segir Elfa Hrund Guttormsdóttir sem byrjaði að hlaupa árið 2006 eftir að hafa skráð sig á hlaupanámskeið. Hún segir nauðsynlegt að hreyfa sig úti og anda að sér fersku lofti eftir alla inniveruna. Elfa hefur hlaupið með 3N, þríþrautarhópi UMFN, í nokkur ár en tók sér hlé frá hlaupum um síðustu áramót og hóf að stunda Metabolic. Hún er núna búin að skrá sig á hlaupanámskeið til að koma sér í gírinn fyrir sumarið.

Hægt að stunda hlaup alls staðar
Ófáir hafa byrjað að hlaupa en gefist upp eftir nokkur skipti. Aðspurð um góð ráð til að gera hlaupin að lífsstíl segir Elfa eitt af því jákvæða við hlaupin að þau sé hægt að stunda alls staðar. „Ég tek með mér hlaupafötin þegar ég fer upp í sumarbústað og tek æfingu. Ég hleyp þrisvar sinnum í viku og það sem veitir mér aðhald er að tilheyra hlaupahópi. Það hvetur mig áfram í hlaupunum. Ef ég kemst ekki á æfingu þá hleyp ég ein,“ segir Elfa. Þegar hún er æfa fyrir hálfmaraþon hleypur hún fjórum sinnum í viku. 

Á hlaupunum hlustar Elfa ekki á tónlist, heldur spjallar við hlaupafélagana eða nýtur þess að hlusta á hljóðin í umhverfinu. Uppáhalds leiðin er frá Reykjanesbæ og í Voga á Vatnsleysuströnd í fallegu veðri. Þá leið hefur Elfa hlaupið nokkrum sinnum og fer þá malarveginn út í Voga.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Komu síðastar í mark
Í sumar ætlar Elfa að taka þátt í Kvennahlaupinu sem nú styttist óðum í en það verður 4. júní um allt land. „Mér finnst Kvennahlaupið alveg ómissandi. Ég hef tekið þátt í nokkrum kvennahlaupum og hlaupið víðsvegar um landið. Það sem er jákvætt við þetta hlaup er að það geta allir tekið þátt og stutt við góðan málstað í leiðinni.“

Elfa hefur tekið þátt í nokkrum hlaupum hérlendis og eftirminnilegasta hlaupið var utanvegahlaup vestur á Þingeyri árið 2013. „Við æskuvinkonurnar skráðum okkur svo félagsskapurinn var frábær og hlaupaleiðin falleg. Hlaupið er 24 km og þegar við komum í mark þá vorum við mjög ánægðar með okkur að hafa klárað hlaupið á nýju vallarmeti, það er að segja að koma síðastar í mark. Við tókum sem sagt rjómann af þessu öllu saman og vorum ekki að keppa við neinn tíma heldur að njóta útsýnisins og spjalla saman um daginn og veginn. Við tókum þá ákvörðun þegar við lögðum upp í þessa ferð að hafa gaman af hlaupinu.“