Góð stemning á AftanRokk festivali
Stórt og mikið AftanRokk Festival var haldið á Paddys í gærkvöldi þar sem þrjár rokk hljómsveitir sýndu snilli sína. Fyrst á svið var hljómsveitin Númer Núll em spilaði meðal annars lagið „Hér á allt að fá að flæða“, sem er í efsta sæti vinsældarlistans á útvarpsstöðinni X-inu. Þar á eftir steig á stokk Jan Mayen, sem kynntu fyrir Keflvíkingum nýjan meðlim hljómsveitarinnar, bassaleikarann Svein Helga Halldórsson sem er ekki ókunnugur Keflvíkingum, en hann er einnig í hljómsveitinni Ælu. Tommygun endaði kvöldið með frábærri frammistöðu, og er sviðsframkoma strákanna eitthvað sem aðrar hljómsveitir ættu að taka sér til fyrirmyndar eins og sést á meðfylgjandi myndum.
Þess má geta að allar þessar hljómsveitir spila á tónlistarhátíðinni Iceland Airwaves sem haldin verður í Reykjavík dagana 19.-23. október. Númer Núll spilar á Grand Rokk á fimmtudeginum kl. 23.20, Jan Mayen spilar á Gauk á Stöng á laugardeginum kl. 23.30 og Tommygun spilar á Grand Rokk á laugardeginum kl. 20.00.