Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Góð stemmning á fiskmarkaði Velferðarsjóðs
Föstudagur 19. febrúar 2010 kl. 14:33

Góð stemmning á fiskmarkaði Velferðarsjóðs


Velferðarsjóðurinn á Suðurnesjum stóð í gær fyrir fiskmarkaði í Nettó og fékk hann frábærar viðtökur. Nær allur fiskurinn seldist og um 100 þúsund krónur söfnuðust,  að sögn Skúla S. Ólafssonar sóknarprests Keflavíkurkirkju.
 
Góð og létt stemmning var í kringum markaðinn ekki síst fyrir tilstuðlan tveggja snillinga frá Harmonikufélagi Suðurnesja sem léku sjómannalög á meðan sjálfboðaliðar úr kirkjustarfinu seldu fiskmetið en það kom frá fiskútflytjendum á svæðinu sem gáfu alls um 300 kíló af fiski. Á boðstólum var nætursöltuð og fersk ýsa, saltfiskur, steinbítur, koli og fleira. Axel Jónsson var á staðnum og framreiddi Biblíumat gegn vægu verði. Allur ágóðinn rann til Velferðarsjóðsins á Suðurnesjum.

„Við erum að fara aftur af stað með átak fyrir Velferðarsjóðinn. Staðan á honum er ágæt en á síðasta ári söfnuðust um 20 milljónir. Þetta er verkefni sem við viljum að sé til staðar og við erum að greiða jafnt og þétt úr sjóðnum, t.d. lækniskostnað og ýmsa þjónustu við börn, mat og fleira, þannig að það er mjög mikilvægt að alltaf sé til nóg í sjóðnum,“ sagði sr. Skúli í samtali við VF.

Efri mynd: Séra Skúli afgreiðir saltfisk og Fríða Rögnvalds gerir pokann klárann.

Neðri mynd: Fjöldi fólks mætti á markaðinn og keypti sér fisk í soðið.
VFmyndir/elg

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024