Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Góð aðsókn í 88 húsið í sumar
Þriðjudagur 14. júní 2005 kl. 11:40

Góð aðsókn í 88 húsið í sumar

Aðsókn í 88 húsið, félags- og menningarmiðstöð ungs fólks 16 – 25 ára, hefur verið góð að undanförnu en ákveðið var að hafa húsið opið út júní til reynslu.

á heimsíðu Reykjanesbæjar segir Hafþór Barði Birgisson, forstöðumaður, að aðsókn hafi yfirleitt dottið niður yfir sumarmánuðina í félagsmiðstöðum og því hafi komið skemmtilega á óvart hversu góð aðsóknin hefur verið í júní.

Skipulagðri dagskrá í húsinu lauk í vikunni með P-rokktónleikum sem heppnuðust mjög vel. Mikil gróska er í tónlistarlífi ungs fólks í Reykjanesbæ og segist Hafþór merkja það m.a. á aukinni þörf á æfingaaðstöðu fyrir hljómsveitir.
”Við reynum að aðstoða þessa krakka eftir megni enda mikið hringt og vil ég hvetja íbúa til þess að hafa samband ef þeir vita um húsnæði sem gæti hentað”.

Í sumar er opið hús í 88 húsinu og þar geta ungmenni fengið sér kaffi, lesið helstu tímarit, kíkt á netið og fl. Opið verður út júní en eftir það verður lokað fram í ágúst.

Vinnuskólinn með aðstöðu í 88 húsinu
Vinnuskólinn mun hinsvegar hafa aðstöðu í 88 húsinu í sumar. Bæði er fyrir skrifstofu skólans, og geymslu á áhöldum en þar mun jafnframt fara fram fræðsla fyrir unglinga í 9. og 10. bekk.

Síðastliðinn vetur var boðið upp á fjölbreytta dagskrá í 88 húsinu sem skipulögð er af þeim ungmennum sem sækja staðinn.
Að sögn Hafþórs gekk til að mynda foreldraklúbbur sem starfræktur var í vetur mjög vel og hlaut hann styrk frá forvarnasjóði Reykjanesbæjar. Að auki hlaut 88 húsið styrk frá Lýðheilsustöð til þess að halda frumkvöðlanámskeið líkt og á síðasta ári.
Þeir sem tóku þátt í foreldraklúbbnum hittust einu sinni í viku og jafnframt var boðið upp á fræðslu í samstarf við m.a. HSS, bókasafnið og fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar.

Lesaðstaða fyrir námsmenn
Næsta haust er stefnt að því að auka enn frekar aðstoð við námsmenn vegna lesaðstöðu. “Það er mikil þörf og mikill vilji hjá okkur að hlúa vel að þeim nemendum sem vantar lesaðstöðu og frið til þess að læra. Í vetur buðum við þeim aðstöðu í kjallaranum og gátu nemendur verið þar fram eftir á tímum sem henta flestum. Auk þess getum við boðið þráðlausa internettengingu”, segir Hafþór.
Einnig verður hlúð enn frekar að hljómsveitum og tónlistarmönnum næsta vetur og stendur til að bjóða reglulega upp á tónleika í samstarfi við tónlistarfólk. Hafþór tekur það fram að allt frumkvæði sé einmitt komið frá ungu fólki sem sæki húsið. “Unga fólkið kemur með hugmyndir og við bjóðum þeim tækifæri til þess að framkvæma þær. Okkar hlutverk er frekar að aðstoða og hlúa að þeim”, segir Hafþór. Í húsinu starfar svokallað húsráð sem skipað er ungu fólki og starfar það í samvinnu við starfsólk 88 hússins að því markmiði að gera starfið í húsinu sem fjölbreyttast og skemmtilegast. Húsráð starfar ekki ósvipað nemendaráðum í skólum og hittist einu sinni í viku til að skipuleggja starfið í húsinu og fjalla um málefni sem tengjast 88 Húsinu.
Sem dæmi um frumkvæði unga fólksins má nefna leiki NBA á breiðtjaldinu í 88 Húsinu sem sýndir eru á nóttinni. Þó nokkur áhugi er fyrir leikjunum og að sögn Hafþórs hafa nokkur ungmenni komið sér saman um að hittast og horfa á leikina saman.

Kynning á starfinu
Þeir sem sækja 88 húsið eru flestir á aldrinum 16 – 20 ára en húsið er opið öllum á aldrinum 16 – 25 ára. 88 Húsið gefur út fréttabréf reglulega, húsfréttir, með helstu upplýsingum um starfið sem að sjálfsögðu unnið er í samstarfi við húsráðið.
Þeir nemendur sem eru að ljúka 10. bekk eru boðnir velkomnir í 88 húsið og að sögn Hafþórs munu foreldrar þeirra nemenda fá heim fréttabréf hússins á komandi hausti þar sem kynnt er tilgangur og markmið starfsins í 88 húsinu.

Að lokum vildi Hafþór þakka fjölmörgum aðilum samstarfið sl. vetur og má þar nefna lögregluna, bókasafnið, foreldrafélög, tómstundaleiðbeinendur grunnskóla, fræðsluskrifstofu, HSS og marga fleiri. “Það eru ótrúlega margir sem koma að starfi 88 hússins og verkefnin eru ærið fjölbreytt”.

Af vef Reykjanesbæjar
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024