Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Glódís lifir fyrir hestana
Laugardagur 19. mars 2022 kl. 08:14

Glódís lifir fyrir hestana

„Ég hef verið í hestum allt mitt líf. Afi og amma voru í þessu og einnig mamma og í raun öll fjölskyldan alla tíð, þannig að ég hef farið í gegnum þetta með þeim,“ segir Glódís Líf Gunnarsdóttir, sautján ára hestakona úr Reykjanesbæ.

Glódís er í hesthúsinu á Mánagrund í Reykjanesbæ mest allan daginn og sinnir umhirðu hestanna. Hún þjálfar flest hrossin sín sjálf ásamt því sem hún er að hjálpa yngri systur sinni við þjálfun hennar hesta. Dagurinn hefst þó á því að pabbi hennar sér um að gefa á morgnanna. Glódís er svo komin í hesthúsin um klukkan níu og byrjar á því að hreinsa undan hrossunum og setja nýtt sag í undirlagið og sinnir almennri umhirðu. Þá fer hún að vinna með hrossin og þjálfa en hún er með hestunum alla daga. Hún sér um hádegisgjöfina og fer svo heim fljótlega upp úr hádegi, þar sem hún stundar fjarnám við Fjölbrautaskólann í Ármúla. Glódís kemur svo aftur í hesthúsið um kvöldið og gefur kvöldgjöfina.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Glódís er keppnismanneskja og hefur verið virkur þátttakandi í keppni í hestaíþróttum í mörg ár og gengið vel.

„Það geta allir haft gaman af þessu og samvera með hestum er svo gefandi og góð. Það er hægt að ná sér í kennslu og verða betri. Allir sem vilja vera í þessu geta byrjað og æft sig og gert sitt allra besta,“ segir Glódís.

Þriggja ára á fyrsta mótið

Glódís var þriggja ára þegar hún tók þátt í sínu fyrsta móti í hestamennsku og þá teymdi afi hennar, hestinn á mótinu.

Þetta eru margar greinar í hestamennskunni. Hver er þín uppáhalds?

„Ég hef verið mjög sterk í fjórgangi og slaktaumatölti. Töltið finnst mér líka mjög skemmtilegt. Þá finnst mér einnig gaman í fimmgangi og skeiði.“

Í hverju ertu best?

„Mínar sterku greinar eru fjórgangur og slaktaumatölt.“

Fjórgangurinn eru allar gangtegundir hestsins nema skeiðið. Hægt tölt, brokk, fet, stökk og greitt tölt.

Hver eru markmiðin framundan?

„Það er landsmót í sumar og ég ætla að gera mitt besta og halda áfram á sömu braut.“

Það er vel búið að hestafólki á Mánagrund. Þar er góð reiðhöll sem Glódís er dugleg að nýta sér við þjálfun hestanna og einnig eru fínar reiðleiðir út frá Mánagrund. Þá er grasi gróin grundin og þar er einnig hægt að ríða út.

Ekki margir krakkar í hestamennskunni

Glódís segir að það séu ekki margir krakkar í hestamennskunni á Suðurnesjum, en einhverjir þó og það sé jákvætt. „Við erum nokkrar hérna á Mánagrund,“ segir hún.

Glódís stefnir á að klára stúdentspróf frá Fjölbrautaskólanum í Ármúla, þar sem hún er í fjarnámi, og fara þaðan í nám að Hólum í Hjaltadal en þar er nám á hestabraut. „Ég kann helling en það má alltaf læra meira.“

Magnaður Magni

Uppáhaldshestur Glódísar heitir Magni frá Spágilsstöðum og hefur farið með henni á tvö Landsmót og skilað henni tvisvar í fjórða sæti í A-úrslitum. „Hann skilar mér alltaf í úrslit þegar ég hef keppt á honum. Hann er algjör höfðingi,“ segir Glódís um hann Magna sem er þrettán vetra.

Magni er alveg magnaður og Glódís fékk hann þegar hún var níu ára, þannig að þau hafa verið gott teymi í nokkuð mörg ár. „Við höfum þróað sambandið okkar mikið. Hann hefur verið frábær kennari og systir mín hefur fengið að keppa á honum. Það er gaman að hafa einn svona höfðingja sem kennir.“

Fjölskylda Glódísar er með tvö hesthús á Mánagrund og öll hrossin þar, utan tveggja, eru keppnishestar.

Glódís er á kafi í þjálfun hesta og hefur nóg að gera í því alla daga. Hún nýtir sér aðstöðu í reiðhöllinni á morgnanna fyrir þjálfunina.

Þannig að lífið snýst bara um hestamennsku?

„Já, það hefur alltaf verið þannig.“

Hvernig er undirbúningur fyrir keppni?

„Ég undirbý mig vel fyrir keppni og er vel tilbúin í slaginn. Ég er alltaf frekar róleg fyrir keppni. Það er alltaf gaman og ég verð ekkert stressuð. Ég þjálfa hrossin mín sjálf og veit því hvernig þau eru og þekki þau því oftast út í gegn.“

Hvernig fer þjálfunin fram?

„Ég þjálfa mismunandi eftir hestum. Sumir þurfa mikla innivinnu og að byggja upp vöðva, jafnvægi og styrk á meðan aðrir eru þannig að maður getur verið mikið á þeim úti og þeir eru vel þjálfaðir og kunna vel flest. Þetta er mjög misjafnt eftir hrossum hvernig þjálfunin þarf að fara fram.“

Ekki góð keppnishross en frábær til útreiðar

Sum hross eru einfaldlega betri en önnur í keppni, þau fara til útlanda og koma ekki aftur. Að sögn Glódísar eru önnur jafnvel ekki góð keppnishross en frábær til útreiðar og til að fara með í hestaferðir og hafa gaman.

Aðspurð hvort vinir hennar séu einnig í hestasportinu, svarar Glódís því  játandi og bætir við að það séu vinir sem hún hafi kynnst í gegnum hestamennskuna. Vinahópurinn sé í hestasportinu og hún vilji frekar verja sínum tíma í hesthúsinu, frekar en í félagslífi niðri í bæ með krökkum á sínu reki.

Þarf að sinna dýrunum allt árið

Það er ekki spurt um árstíðir í hestamennskunni, það þarf að sinna dýrunum allt árið. Hestar eru ekki settir í geymslu eins og golfsettið yfir harðasta veturinn. Í lok ágúst er hrossunum gefið algjört frí og sett í haga og fá þannig frí þar til þau eru tekin aftur á hús um miðjan október til byrjun nóvember. Á meðan þau ganga frjáls í haganum eru unghross tekin í þjálfun, þannig að það er verið að vinna með hesta allt árið um kring.

Það geta verið miklar tilfinningar sem tengjast hestamennskunni þegar hestamenn þurfa að láta frá sér hross. „Ég get orðið leið þegar sumir fara en maður getur líka orðið ánægður þegar maður selur hross og veit að það fer á góðan stað. Það er alltaf gaman að fylgjast með þeim á nýjum og góðum stað.“

Hestar eiga ekki afturkvæmt til Íslands

Glódís segist ekki ennþá hafa farið á Heimsmeistaramót íslenska hestsins en það sé stefnan, að fara og horfa og jafnvel keppa. Það er stór ákvörðun að fara út með sinn keppnishest, því þeir eiga ekki afturkvæmt til Íslands vegna reglna. Þátttakendur á heimsmeistaramóti eru því annað hvort búnir að selja keppnishestinn til útlanda fyrir mót eða selja hann á meðan mótinu stendur. „Svo eru hestar sem maður myndi ekki týma að fara með út,“ segir Glódís, ein efnilegasta hestakona á Suðurnesjum.