Gleymir stund og stað á sviðinu og nýtur þess að syngja
Perla Sóley er fulltrúi Suðurnesja í söngkeppni Samfés
Perla Sóley Arinbjörnsdóttir er 16 ára nemandi úr Akurskóla. Hún verður fulltrúi Suðurnesja í söngkeppni Samfés sem fram fer í dag laugardag. Á síðustu fjórum árum hafa Suðurnesjamenn átt tvo sigurvegara. Árið 2012 sigraði Melkorka Rós Hjartardóttir úr Vogum og í fyrra var það Jóhanna Ruth Luna Jose úr Reykjanesbæ sem fagnaði sigri.
Perla Sóley hefur verið að syngja alveg frá barnæsku og sótti sitt fyrsta söngnámskeið átta ára gömul hjá Gargandi snilld hjá Guðnýju Kristjáns í Keflavík. Eftir það hefur hún ekki getað hætt að syngja. Árið 2014 lék hún Sandy í söngleiknum Grease hjá Leikfélagi Keflavíkur. Þar fékk hún fyrst að spreyta sig á leiklistinni. „Þessi reynsla jók sjálfstraust mitt mikið og ákvað ég að sækja um hjá Sönglist í Borgarleikhúsinu í framhaldinu þar sem ég var í listhópi. Í dag er ég líka að læra söng hjá Tónlistarskóla Reykjanesbæjar sem er öðruvísi kennsla en ég er vön, en þar er mikil kennsla í söngtækninni sjálfri,“ segir Perla.
Dáist að listamönnum sem þora að sýna kærleika
Á Samfés mun Perla syngja lagið Jar of Hearts eftir Christina Perri. „Þetta er eitt af mínum uppáhalds lögum og ég hreinlega elska að syngja það. Textinn er djúpur og það er skemmtilegt að túlka hann.“ Á síðasta ári sótti Perla tónleika hjá söngkonunni Jessie J sem höfðu mikil áhrif á hana. „Hún talaði þar um að við eigum að vera óhrædd við að fylgja draumunum okkar og stefna hátt. Það var eitthvað sem hreyfði við mér bæði þegar hún söng og spjallaði milli laga. Ég fann virkilega hversu mikið mig langar að standa á sviði og skína,“ segir Perla sem á sér enga sérstaka fyrirmynd í tónlistinni. Ég dáist bara alltaf að listamönnum sem þora að sýna kærleika, vera þeir sjálfir og eru óhræddir við að túlka tónlistina sína.“
Nú þegar stóra stundin á Samfés er framundan er ekki laust við að taugatitringur geri vart við sig. Perla verður frekar óstyrk áður en hún stígur á svið. Þegar á sviðið er komið breytist hins vegar allt á svipstundu. „Um leið og ég stíg upp á svið og finn ljósin skína á andlit mitt, þá gleymi ég mér og ég nýt þess að syngja, í þessar þrjár mínútur á ég sviðið og ég elska það. Ég hlakka alltaf til augnabliksins þegar ég klára seinasta orðið og hlusta á tónlistina dofna og ég heyri klappið, ég get ekki lýst þeirri tilfinningu en hún er æðisleg. Ég er svo þakklát fyrir að hafa komist áfram og ég ætla að njóta mín í botn, þetta er reynsla sem ég mun aldrei gleyma!“