Gleraugnaglámar í Krummaskuði
Leikfélag Keflavíkur sýnir um þessar mundir gamanleikritið „Krummaskuð“ eftir Guðjón Sigvaldason, en hann leikstýrir einnig verkinu.
Ég skellti mér í Frumleikhúsið á sunnudagskvöldið og varð yfir mig hrifin, bæði af leikmyndinni sem var mjög vel útfærð, búningum sem vöktu athygli mína og svo gleraugunum sem allir höfðu á nefinu. En síðast en ekki síst hreifst ég af ungu leikurunum sem slógu algerlega í gegn. Greinilegt var að þau hafa notið góðrar leiðsagnar frá eldri leikurum Leikfélagsins og svo auðvitað frá leikstjóranum sjálfum. Hann virðist haf náð afar vel til unglinganna.
Það var mjög skemmtilegt að sjá hvað leikhópurinn nær að mynda góðar andstæður með unglingatalsmáta, framkomu og klæðnaði. Þetta er mjög sam-heldinn hópur sem rennur í gegnum verkið eins og atvinnumenn og ekki var söngur-inn síðri. Þau stóðu sig sem sagt mjög vel bæði sem leikarar og söngvarar. Mér fannst Melkorka Raf (Ingibjörg Ósk Erlendsdóttir), Erpur Snær (Marínó Gunnarsson) og Marselíus (Jón Björn Ólafsson) fara á kostum. Einnig tókst leikkonunni sem átti að túlka færeyska yngismey ? mjög vel upp. Frábært var sjá hve margar persónugerðir fá að njóta sín, t.d. töffarar, kjánaprik, snobbarar, kjaftakerlingar, "mjúka" menn og "harða" og bókaorma svo eitthvað sé nefnt.
Um hvað fjallar svo Kummaskuð ?
Í stuttu máli fjallar leikritið um íbúa Krummaskuðs sem er agnarlítið þorp (slúðurþorp) lengst út á landi. Tveir strákar úr Reykjavík birtast einn daginn þegar fjölskylda þeirra flytur í þennan litla bæ. Allir þorpsbúar eru voðalega spenntir að sjá og ræða við piltana tvo, en þeir sjálfir eru sko ekkert spenntir að vera komnir lengst út á hjara veraldar. Þeir eru ekki sparir á álit sitt á þorpi sem hefur aðeins einn ljósastaur, fimm götur og einstaklega hallærislegan klæðaburð íbúa að þeirra smekk.
Það verður uppi fótur og fit þegar ein stúlkan verður ólétt eftir annan strákpjakkann af mölinni og hann vill ekki axla ábyrgðina.
En í sameiningu ná bæjarbúar að kljást við þann vanda og skilaboðin til ungs fólks eru skýr og afdráttarlaus.
Ég mæli eindregið með að sem flestir sjái sýninguna, því það er vel tekið á móti öllum gestum í Krummaskuði.
Þetta er mjög góð skemmtun fyrir alla fjölskylduna og ég fór heim með bros á vör um leið og ég hugsaði um hve ótalmörg "Krummaskuð" eru til á Íslandi.
Helga B. Stefánsdóttir