Gleði-PINNAR og fýlu-PÚKAR í Heiðarskóla

Nemendur í leiklistarvali Heiðarskóla frumsýndu söngleikinn Pinnar & Púkar á árshátíð skólans þann 16.mars. Þær Guðný Kristjánsdóttir og Maria Óladóttir leikstýrðu krökkunum eins og undanfarin mörg ár.
Leikgerð Maríu Óladóttur er unnin upp úr söngleiknum Trolls og fjallar um, eins og nafnið gefur til kynna, Gleði-pinna og Fýlu-púka sem eru ólíkir á margan hátt en eiga samt svo margt sameiginlegt þegar alvara lífsins með öllum sínum kostum og göllum bankar upp á. Leikur, söngur, dans og gleði einkennir sýninguna og fara nemendur á kostum.

Á hverju vori er sett á svið metnaðarfull sýning nemenda skólans og eru nemendur búnir að leggja hart að sér við uppsetningu sem þessa. Þess vegna var ákveðið að hafa tvær aukasýningar á þessu snilldarverki fyrir almenning og verða þær miðvikudagskvöldið 11. apríl og í kvöld, fimmtudagskvöldið 12. apríl á sal Heiðarskóla. Miðaverð er 1000 krónur og rennur allur ágóði sýningarinnar til nemenda skólans.