Gleði og samvera 25.maí: Dagur barnsins haldinn hátíðlegur á morgun
Dagur barnsins verður haldinn hátíðlegur á Íslandi í fyrsta sinn sunnudaginn 25. maí n.k.
Markmiðið með því að helga börnum sérstaklega einn dag á ári er að skapa tækifæri til að minna landsmenn alla á þessa mikilvægu þegna landsins, koma málefnum barna á framfæri og leyfa röddum barna að hljóma. Sameinuðu þjóðirnar hafa frá árinu 1954 helgað 20. nóvember alþjóðlegum degi barna. Ríkisstjórnin vill fylgja því góða fordæmi en ákvað að velja deginum stað á tíma birtu, vors og gróanda.
Hugmyndin er sú að dagur barnsins renni inn í þjóðarvitundina á komandi árum og verði fyrst og fremst til þess fallinn að hvetja til samveru foreldra með börnum sínum.
Nánari upplýsingar eru á dagurbarnsins.is
Degi barnsins 25. maí hefur verið valin yfirskriftin: Gleði og samvera.
Eftirfarandi dagskrá verður í boði í Reykjanesbæ og nágrenni í tilefni af Degi barnsins:
Kl. 8.00 - 18.00 Vatnaveröld í Reykjanesbæ er tilvalin skemmtun fyrir alla fjölskylduna með 50m innilaug og yfirbyggðum vatnaleikjagarði.Það er frítt í sund fyrir öll börn í Reykjanesbæ. Í Vatnaveröldinni fá börnin sundkort og ef þau mæta með það í hverja sundferð, passa upp á að fá stimpil í kortið þá fær barnið skemmtilega gjöf þegar kortið er fullstimplað.
Kl. 11.00 Styttur bæjarins! Lagt af stað frá Keflavíkurkirkju og gengið með börn og fullorðna um bæinn og styttur bæjarins skoðaðar. Sagt verður frá hverri styttu og sungin lög úr sunnudagaskólanum. Leikskólarnir Tjarnasel og Heiðarsel hafa gefið út bók um stytturnar og leiða leikskólastjórar á Tjarnaseli gönguna. Djús og kex í boði að göngu lokinni.
Kl. 11.00- 17.00 Listasafn Reykjanesbæjar í Duushúsum, Menningar-og listamiðstöð Reykjanesbæjar.
Í safninu er að finna sýninguna Bátafloti Gríms Karlssonar og sýninu Byggðasafns Reykjanesbæjar, Vagg og velta; Rokk í hálfa öld frá Poppminjasafni Íslands. Listasafn Reykjanesbæjar tekur nú í fyrsta sinn þátt í Listahátíð í Reykjavík með sýningunni Þríviður sem er samsýning þriggja íslenskar myndlistarmanna. Þeir eru Hannes Lárusson, Guðjón Ketilsson og Helgi Hjaltalín Eyjólfsson.
Listasafn Reykjanesbæjar hefur í samvinnu við 6 leikskóla í bænum unnið að sérstakri Listahátíð barna í
tilefni Degi barnsins Þar má sjá myndlistarverk eftir elstu árganga Heiðarsels, Holts, Garðasels, Tjarnasels, Vesturbergs og Hjallatúns og eru þessi verk unnin sérstaklega fyrir þetta tækifæri og ber sýningin heitið Börn. Á sýningunni má einnig lesa um væntingar barnanna til framtíðarinnar. Sýningunni lýkur 26. maí 2008.
Aðgangur er ókeypis.
Kl. 14.00 Menningarveisla að Útskálum. Hollvinir Útskálakirkju efna til menningarveislu að Útskálum og eru allir áhugasamir hvattir til að mæta. Á dagskrá eru; Kór starfsmanna Strætó bs, barnakór Garðs, Hrefna Eggertsdóttir píanóleikari og Davíð Ólafsson, Barði Guðmundsson segir frá bernskudögum að Útskálum, sr. Sigurður Sigurðarson vígslubiskup flytur frásögn. Prestsetrið opið. Veitingar í boði kvenfélagsins Gefnar.
Stekkjarkot í Innri Njarðvík er tilgátuhús sem reist var árið 1993, fjósi var svo bætt við sumarið 2002. Þarna hafði áður staðið gömul sjóbúð að upplagi frá 1856 en yngsti hluti frá fyrri hluta 20. aldar. Húsin eru í góðu standi.
Víkingskipið Íslendingur nákvæm eftirlíking Gaukstaðaskipsins sem fannst og var grafið upp árið 1882 í Noregi. Talið er að skipið hafi verið smíðað árið 870, fjórum árum áður en Ingólfur Arnarson nam land við Ísland.
Á Víkingatímabilinu var skip eins og Íslendingur mannað 70 mönnum. 32 bardagaskildir fundust á hvorri hlið Gaukstaðaskipsins, samtals 64 og voru þeir hnýttir á skipið. Þeir voru notaðir sem vörn skipverja í bardögum á sjó og landi. Íslendingur er hraðskreitt og öruggt úthafsskip. Íslendingur er mjög verðugur fulltrúi þeirra víkingaskipa sem sigldu um Atlandshafið fyrir 1000 árum. Skipið var byggt árið 1996.
Landnámsbærinn Vogur í Höfnum, á túninu fyrir aftan Kirkjuvogskirkju. Við rannsóknir árið 2002 kom í ljós að þessi bústaður er ekki yngri en frá því árið 900 sem er fornt á íslenskan mælikvarða en Ari fróði greinir svo frá að Ingólfur Arnarsson hafi fyrstur numið land, í Reykjavík, árið 870. Við jarðsjámælingar kom í ljós um 18 metra langur og um 6 til 8 metra breiður skáli. Auk þess má sjá þrjú minni hús austan við skálann og tvær óljósar rústir vestan og norðvestan af skálanum. Þessar niðurstöður rýma ágætlega við þá mynd sem fornleifafræðingar hafa gert sér af fyrstu bústöðum í landinu.
Álfubrúin. Þessari táknrænu brú var komið fyrir yfir gjá sem myndast hefur við hreyfinar meginlandsflekanna, Evrasíu- og Norður-Ameríkuflekanna, sem mætast hér á landi. Gjáin er á því svæði sem flekaskilin ganga upp á landið en þau halda áfram frá Reykjanesi, norður fyrir land, og eru víða sýnileg. Fólki gefst kostur á að fara yfir brúna hvenær sem er án gjalds.
Hugmyndir úr niðurstöðum frá Forvarnardegi forsetans. "Þetta vilja þau":
- borða saman
- horfa á mynd saman
- spila
- spjalla
- elda
- baka
- far í gönguferðir
- hjóla
- eyða meir tíma saman, tengjast hvert öðru, vera samheldin fjölskylda
Víða um bæjarfélagið er boðið upp á spar-og körfuboltavelli og opna leikvelli með tækjum fyrir yngstu kynslóðina og leiktæki eru á hverri skólalóð. Við fimm grunnskóla eru afgirtir og upplýstir sparkvellir lagðir gervigrasi. Við alla grunnskóla bæjarins eru körfuboltakörfur.
Göngustígar og gönguleiðir eru víða í sveitarfélaginu og gangan góð hreyfing.
Hjólreiðar hin besta skemmtan, muna bara öryggisbúnaðinn og þeir sem eldri eru þurfa þar að vera góðar fyrirmyndir í umferðinni.
Svo er spurning að rifja upp gömlu útileikina og kenna ungu kynslóðinni.
Dagurinn snýst um gleði og samveru og að safna saman góðum fjölskylduminningum.