Gleði og gaman á laugardegi á Ljósanótt - myndir
Vel heppnuð hátíðarhöld. Lokadagur í dag með sýningum og tónleikum.
Mikill mannfjöldi tók þátt í hátíðarhöldum Ljósanætur í gærkvöldi í blíðskaparveðri, þurru og stilltu eftir viðburðarríkan dag. Gestir Ljósanætur fylgdust agndofa með stórkostlegri flugeldasýningu HS ORKU í umsjón Björgunarsveitarinnar Suðurnes, þar sem flugeldar tókust á loft bæði ofan af Berginu svokallaða, sem og af haffletinum sjálfum, rétt utan við hátíðarsvæðið og sköpuðu einstakt sjónarspil sem uppskar undrunar- og fagnaðaróp viðstaddra.
Framan af kvöldi var boðið upp á glæsilega tónleika þar sem Pollapönkarar kættu börn á öllum aldri, þá tóku við ljúflingarnir í hljómsveitinni Valdimar og sprengdu heimamenn af stolti. Ekki tók verra við þegar eðal hljómsveitin Hjaltalín steig á svið og svo var það sjálfur Bó, Björgvin Halldórsson sem hélt mannskapnum við efnið. Það var svo sumarsmellsgrúppan AmabAdama sem sendi menn syngjandi sátta heim í ból.
Fjórði dagur hátíðahaldanna tekur við í dag og þá skapast tækifæri til að skoða þær sýningar sem enn standa út af í þéttri fjögurra daga dagskrá Ljósanætur. Þá er fjölbreytt úrval af tónleikum á boðstólum. Tvennir hálftíma tónleikar eru í Rokksafni Íslands í Hljómahöll þar sem fram koma Ragnheiður Gröndal annars vegar og KK hins vegar. Með tónleikamiðanum fylgir aðgangur að safninu. Þá býður Elíza Geirsdóttir Newman til tónleika í kirkjunni í Höfnum.
Hápunkti nær dagurinn með tvennum hátíðartónleikum, Með blik í auga IV, í Andrews leikhúsinu á Ásbrú. Sýningin kallast Keflavík og kanaútvarpið og er um að ræða tónlistarveislu í bland við góðar sögur og skemmtilega umgjörð. Bjarni Ara, Matti Matt, Regína Ósk og Sverrir Bergmann flytja lögin ásamt stórhljómsveit. Miða á þennan viðburð er hægt að nálgast á midi.is.
Reykjanesbær þakkar gestum Ljósanætur fyrir frábæra helgi, óskar öllum góðrar heimferðar og vonast eftir að hitta ykkur á nýjan leik að ári.