„Glatt á hjalla í búðinni hjá pabba"
-segir Kristín Ingimundardóttir húsmóðir úr Garðinum sem rifjar upp jólin í gamla daga.
„Jólin eru yndislegur tími og ég tárfelli oft á jólunum," segir Kristín Ingimundardóttir húsmóðir úr Garðinum en Kristín varð 88 ára þann 11. Maí sl. Kristín hefur búið í Garðinum frá árinu 1938 en hún var gift Þorsteini Jóhannessyni útgerðarmanni frá Gauksstöðum. Kristín er fædd á bænum Hala í Rangárvallasýslu og hún segist muna jólin vel.
„Það var allt þrifið og allt fægt sem hægt var og þetta þótti okkur krökkunum skemmtilegt," segir Kristín en faðir hennar Ingimundur Jónsson smíðaði jólatré á heimilið og börnin skreyttu það. „Við fórum út í móa og týndum berjalyng, fórum með það heim og skreyttum jólatréð með því. Það var lítið um grenitré á þessum tíma."
Aðfangadagur var alltaf mjög hátíðlegur að sögn Kristínar og húsverkum var flýtt. „Það var mjólkað fyrr en venjulega og það þrifu sig allir. Kúnum var gefin auka tugga á aðfangadagskvöld en við fengum hangikjöt og hrísgrjónagraut. Þetta þótti okkur agalega gott og okkur hlakkaði alltaf voða mikið til," segir Kristín en þegar búið var að borða las Ingimundur faðir Kristínar úr jólaguðsspjallinu. „Við sungum úr jólasálmum og gengum í kringum jólatréð, en það voru engir pakkar. Amma mín bjó hjá okkur og það mátti ekki spila á aðfangadagskvöld og hún var mjög hörð á því. En á Jóladag spiluðum við langt fram eftir."
Jólin 1936 eru fyrstu jólin sem Kristín man eftir í Keflavík en þá var hún tvítug að aldri og nýflutt á Suðurnesin. Ingimundur faðir Kristínar varð þekktur sem kaupmaður við Hafnargötuna í Verslun Ingimundar Jónssonar og segir Kristín að það hafi verið mikið að gera í versluninni fyrir jólin.
„Þetta var matvörubúð og ég man eftir því að á Þorláksmessu hafði pabbi einu sinni opið til klukkan þrjú um nóttina. Það var iðulega glatt á hjalla í búðinni og nóg um að vera. Ég man svo vel eftir fólki ganga út úr búðinni með eplakassa á öxlinni, en á þessum tíma þóttu ávextir algjör munaðarvara," segir Kristín og í minningunni segir hún að það hafi alltaf verið hvít jörð og gott veður. „En auðvitað var þetta ekkert svona - en myndin lifir svo falleg í minningunni," segir Kristín og brosir.
Fyrsta jólagjöfin sem Kristín keypti var bók handa pabba sínum. „Bókin kostaði 12 krónur sem þóttu miklir peningar á þessum árum en í bókinni var ferðasaga frá austurlöndum. Fyrir mömmu og systur mínar keypti ég léreft og saumaði koddaver handa þeim," segir Kristín og hún er forviða á gjafagleðínni. „Þetta bara nær engri átt og hlýtur bara að fara að enda."
Á árunum fyrir seinni heimsstyrjöldina var töluvert um fátækt í Keflavík að sögn Kristínar. „Ég man vel eftir því þegar pabbi sendi pakka á aðfangadag með matvöru á heimili í Keflavík þar sem hann vissi að ekki væru til peningar fyrir mat. Já, það er mikill munur á andrúmsloftinu núna eða í þá daga," segir Kristín og lætur hugann reika.
Kristín segist kunna hálf illa við jólin eins og þau eru í dag. „Jólin líkjast ekki þeim sem ég hefði kosið að þekkja. Og satt best að segja finnst mér fólk ekki nærri eins ánægt í dag eins og það var í gamla daga. Fólk verður að taka því með meiri ró um jólin og njóta kyrrðarinnar og jólaboðskaparins. Hætta að hugsa einungis um gjafirnar og eyða minna í allskyns óþarfa skart," segir Kristín en hún ætlar sér að hafa það gott um jólin. „Ég ætla að gleðjast um jólahátíðina og óska öllum gleðilegra og rólegra jóla."
„Jólin eru yndislegur tími og ég tárfelli oft á jólunum," segir Kristín Ingimundardóttir húsmóðir úr Garðinum en Kristín varð 88 ára þann 11. Maí sl. Kristín hefur búið í Garðinum frá árinu 1938 en hún var gift Þorsteini Jóhannessyni útgerðarmanni frá Gauksstöðum. Kristín er fædd á bænum Hala í Rangárvallasýslu og hún segist muna jólin vel.
„Það var allt þrifið og allt fægt sem hægt var og þetta þótti okkur krökkunum skemmtilegt," segir Kristín en faðir hennar Ingimundur Jónsson smíðaði jólatré á heimilið og börnin skreyttu það. „Við fórum út í móa og týndum berjalyng, fórum með það heim og skreyttum jólatréð með því. Það var lítið um grenitré á þessum tíma."
Aðfangadagur var alltaf mjög hátíðlegur að sögn Kristínar og húsverkum var flýtt. „Það var mjólkað fyrr en venjulega og það þrifu sig allir. Kúnum var gefin auka tugga á aðfangadagskvöld en við fengum hangikjöt og hrísgrjónagraut. Þetta þótti okkur agalega gott og okkur hlakkaði alltaf voða mikið til," segir Kristín en þegar búið var að borða las Ingimundur faðir Kristínar úr jólaguðsspjallinu. „Við sungum úr jólasálmum og gengum í kringum jólatréð, en það voru engir pakkar. Amma mín bjó hjá okkur og það mátti ekki spila á aðfangadagskvöld og hún var mjög hörð á því. En á Jóladag spiluðum við langt fram eftir."
Jólin 1936 eru fyrstu jólin sem Kristín man eftir í Keflavík en þá var hún tvítug að aldri og nýflutt á Suðurnesin. Ingimundur faðir Kristínar varð þekktur sem kaupmaður við Hafnargötuna í Verslun Ingimundar Jónssonar og segir Kristín að það hafi verið mikið að gera í versluninni fyrir jólin.
„Þetta var matvörubúð og ég man eftir því að á Þorláksmessu hafði pabbi einu sinni opið til klukkan þrjú um nóttina. Það var iðulega glatt á hjalla í búðinni og nóg um að vera. Ég man svo vel eftir fólki ganga út úr búðinni með eplakassa á öxlinni, en á þessum tíma þóttu ávextir algjör munaðarvara," segir Kristín og í minningunni segir hún að það hafi alltaf verið hvít jörð og gott veður. „En auðvitað var þetta ekkert svona - en myndin lifir svo falleg í minningunni," segir Kristín og brosir.
Fyrsta jólagjöfin sem Kristín keypti var bók handa pabba sínum. „Bókin kostaði 12 krónur sem þóttu miklir peningar á þessum árum en í bókinni var ferðasaga frá austurlöndum. Fyrir mömmu og systur mínar keypti ég léreft og saumaði koddaver handa þeim," segir Kristín og hún er forviða á gjafagleðínni. „Þetta bara nær engri átt og hlýtur bara að fara að enda."
Á árunum fyrir seinni heimsstyrjöldina var töluvert um fátækt í Keflavík að sögn Kristínar. „Ég man vel eftir því þegar pabbi sendi pakka á aðfangadag með matvöru á heimili í Keflavík þar sem hann vissi að ekki væru til peningar fyrir mat. Já, það er mikill munur á andrúmsloftinu núna eða í þá daga," segir Kristín og lætur hugann reika.
Kristín segist kunna hálf illa við jólin eins og þau eru í dag. „Jólin líkjast ekki þeim sem ég hefði kosið að þekkja. Og satt best að segja finnst mér fólk ekki nærri eins ánægt í dag eins og það var í gamla daga. Fólk verður að taka því með meiri ró um jólin og njóta kyrrðarinnar og jólaboðskaparins. Hætta að hugsa einungis um gjafirnar og eyða minna í allskyns óþarfa skart," segir Kristín en hún ætlar sér að hafa það gott um jólin. „Ég ætla að gleðjast um jólahátíðina og óska öllum gleðilegra og rólegra jóla."