Glæsilegur jólagarður við Sunnubraut í Keflavík
Leikmyndasmiðir True Detective fara mikinn í Reykjanesbæ þessa dagana. Eftir að hafa umbreytt hluta Hafnargötunnar í jólalega götu í bænum Ennis í Alaska, bættu leikmyndasmiðirnir um betur og sköpuðu glæsilegan jólagarð við eitt af húsunum á Sunnubraut í Keflavík sem notast verður við í fjórðu seríu þáttanna sem True North er að framleiða hér á landi fyrir HBO-framleiðslufyrirtækið.
Vegna kvikmyndatökunnar var Sunnubraut lokað bæði þriðjudag og miðvikudag í þessari viku. Brekkustíg og Þórustíg í Njarðvík verður svo lokað að hluta dagana 8. og 9. desember vegna kvikmyndatöku.
Tökum við Hafnargötu lokið og leikmyndin rifin
Aðeins viku eftir að uppbygging leikmyndar True Detective hófst við Hafnargötuna í Keflavík er tökum lokið. Frá því snemma á laugardagsmorgun var unnið að því að fjarlægja leikmyndina, þrífa upp gervisnjó og taka niður skilti og merkingar.