Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Laugardagur 22. júní 2002 kl. 23:44

Glæsilegt menningarsumar á Suðurnejum

Menningarlíf í Reykjanesbæ stendur með miklum blóma í sumar og ferðafólk og heimamenn geta fundið sér ýmislegt til dundurs. Ljósanóttin er auðvitað stærsti atburðurinn hjá okkur í sumar og verður haldin 7. sept. Nú þegar er búið að fastsetja um 30 listviðburði tengda þessari helgi, fyrir utan allt annað sem þá er gert. Ég vil sérstaklega vekja athygli á samkeppni um Ljósanæturlag sem ætti að undirstrika enn frekar tónlistarbæinn okkar. Þetta segir Valgerður Guðmundsdóttir, menningarfulltrúi Reykjanesbæjar í Sumarblaði Víkurfrétta, sem dreift verður eftir helgi.Á vegum Bygðasafns Suðurnesja hefur nýlega verið opnuð sýning á 58 bátalíkönum Gríms Karlssonar í Duushúsum, rétt við smábátabryggjuna. Þetta er glæsileg sýning, bæði með tilliti til sögunnar og handverksins. Þetta er mjög sérstök sjóminjasýning þar sem sýndur er hluti sjávarútvegssögu íslensku þjóðarinnar á mjög nútímalegan háttt. Sýningin er opin alla daga frá 11.00 til 18.00 og þar eru allir textar bæði á ensku og íslensku og því upplagt að koma með erlenda gesti á sýninguna. Einnig er hægt heimsækja Byggðasafnið á Vatnsnesi en þá þarf að hringja á undan og panta tíma í síma 421-6700. Á Bókasafni Reykjanesbæjar er ekki slegið slöku við yfir sumartímann. Þar er m.a. hægt að lesa sér til um ferðalög, bæði innan lands og utan og einnig hefur þangað verið safnað miklum fróðleik um Suðurnesin sem starfsfólk safnsins hefur komið fyrir á aðgengilegan hátt. Þá er líka hægt að ferðast þar í huganum með því að lesa ferðabækur annarra.


Handverksfólk á Suðurnesjum hefur lengi rekið verslun í Fischershúsi að Hafnargötu 2 og þar er alltaf opið frá 13.00-17.00 virka daga. Þar má finna handverk og listmuni eftir Suðurnesjamenn. Félag myndlistarmanna í Reykjanesbæ hefur líka opnað sölugallerý í Svarta pakkhúsinu að Hafnargötu 2. Þar sýna og selja myndlistarmenn af svæðinu verk sín og er opið hjá þeim alla daga frá 13.00-17.00, líka um helgar. Að auki má nefna að Hringlist við Hafnargötu hefur einnig gott úrval listaverka eftir Suðurnesjamenn. Tónlistarmenn hafa alltaf verið áberandi í menningarlífi Reykjanesbæjar og hafa kaffihúsaeigendur verið duglegir að bjóða uppá lifandi tónlist um helgar. Eru bæjarbúar hvattir til að fylgjast vel með auglýsingum og sjá hverjir eru að spila og hvar.

Stekkjarkot við Reykjanesbrautina hefur verið í viðgerð undanfarið en mun opna nú aftur í sumar. Þar gefst fólki kostur á að sjá hina dæmigerðu þurrabúð eins og þær voru svo margar hér áður fyrr. Við eigum hér á Reykjanesi margar gamlar og merkar kirkjur og nú á næstunni mun koma út upplýsingarit þar sem fólki er bent á sérstakan kirkjuskoðunarhring og er upplagt að fara hring um Reykjanesskagann og skoða þessar merku byggingar sem hafa mikið menningarsögulegt gildi fyrir okkur. Einnig bendi ég fólki á að hægt er að fara inná á heimasíðu Reykjanesbæjar (reykjanesbaer.is) og finna þar skrá og umfjöllun um allar styttur bæjarins og minnismerki og er tilvalið að ganga hring um bæinn, skoða listaverkin og skella sér svo inná kaffihúsin á eftir.

Ljósanóttin er auðvitað stærsti atburðurinn hjá okkur í sumar og verður haldin 7. sept. Nú þegar er búið að fastsetja um 30 listviðburði tengda þessari helgi, fyrir utan allt annað sem þá er gert. Ég vil sérstaklega vekja athygli á samkeppni um Ljósanæturlag sem ætti að undirstrika enn frekar tónlistarbæinn okkar.

Það má því segja að í menningarlegu tilliti sé margt að sjá og heyra í Reykjanesbæ og óska ég fólki góðrar ferðar og góðrar skemmtunar.

Valgerður Guðmundsdóttir, menningarfulltrúi.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024