Mannlíf

Glæsilegt fornbíla- og dráttarvélasafn í Grindavík
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
sunnudaginn 5. nóvember 2023 kl. 06:09

Glæsilegt fornbíla- og dráttarvélasafn í Grindavík

„Ég myndi segja að þessi Buick, árgerð 1925, sé flaggskipið í flotanum. Það er ekki til annar eins bíl hér á landi, á Norðurlöndum, hugsanlega ekki í heiminum,“ segir Hermann Ólafsson, fornbíla- og dráttarvélaeigandi í Grindavík.

Hermann er oftast kenndur við útgerðarfyrirtækið Stakkavík sem hann stofnaði ásamt Gesti, bróður sínum, og föður þeirra, Ólafi Gamalíelssyni heitnum, fyrir 35 árum síðan. Hermann er hins vegar ekki við eina fjölina felldur og hefur undanfarin ár sankað að sér tugi dráttarvéla og fornbíla og er með gripina til sýnis í sýningarsal í Grindavík. Hann fékk heimsókn á dögunum frá Fergusonfélaginu.

Hermann Ólafsson, fornbíla- og dráttarvélaeigandi.

Hemmi, eins og hann er jafnan kallaður, hefur alltaf verið safnari. „Ég hef alltaf verið áhugamaður um gamla hluti, safnaði frímerkjum og mynt þegar ég var yngri. Ég ólst upp í sveit má segja, hef því alltaf haft áhuga á traktorum og fyrir líklega einum tuttugu árum hófst þessi söfnunarárátta. Þetta byrjaði með gömlum dráttarvélum og þá helst Ferguson en svo hafa fornbílar bæst í hópinn undanfarin ár. Þetta er nú kannski bara komið gott, ég vona að það verði ekki einhverjum glæsilegum fornbíl glennt fyrir framan nefið á mér sem ég á ekki, ég er vís til að kaupa hann og bæta honum í safnið. Það eru margir bílar og dráttarvélar sem eru merkilegir í þessu safni mínu, merkilegastur er þó kannski Buick sem er frá árinu 1925. Það komu u.þ.b. 25 svona bílar til landsins á sínum tíma, sá sem ég keypti hann af hafði eignast nokkra þeirra og náði að nýta hluti úr þeim til að búa til þennan glæsilega bíl sem er hér í dag, ég myndi segja að þetta sé flaggskipið. Það er enginn annar svona bíll til á Íslandi, ekki einu sinni á Norðurlöndunum, jafnvel er ekki til annar svona bíll í heiminum.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024
Ragnar Jónasson, formaður Fergusonfélagsins.

Fergusonfélagið var stofnað árið 2007, formaður félagsins í dag er Ragnar Jónasson. Það var gaman að fylgjast með gömlum bóndum og öðrum, þeir voru eins og lítil börn í sælgætisbúð. Ragnar sagði frá tilurð félagsins. „Ég er fæddur árið 1947, var sendur í sveit sem gutti og kynntist dráttarvélum. Mörgum árum seinna dreymdi mig um að eignast Ferguson-dráttarvél eins og ég hafði keyrt í sveitinni og kom auga á einn og keypti. Svo áttaði ég mig á að ég kunni ekkert á vélar svo ég fór að reyna hafa uppi á mönnum með sama áhugamál og ég, þannig gætum við kannski hjálpað hvorum öðrum og úr varð að Fergusonfélagið var stofnað árið 2007 ef ég man rétt. Svo fóru að koma fleiri dráttarvélar en bara Ferguson en við ákváðum að halda Fergusonnafninu. Við komum reglulega í safnið hjá Hermanni, okkur finnst þetta alltaf jafn gaman, það bætast alltaf við fornbílar og síðan við komum síðast hafa nokkrir glæsivagnar bæst í hópinn,“ sagði Ragnar.

Þorfinnur Steinar Júlíusson við hinn glæsilega Buick, árgerð 1925.

Þorfinnur Steinar Júlíusson átti hinn glæsilega Buick en seldi Hermanni hann. „Þetta er Buick Master Six, árgerð 1925. Ég eignaðist bílinn árið 1985, þá var búið að breyta honum í vörubíl svo ég keypti fleiri svona bíla til að geta gert upp einn góðan. Við getum sett hann í gang núna og þess vegna farið á honum til Egilsstaða,“ sagði Þorfinnur að lokum.