Glæsilegir afmælistónleikar kvennakórsins
Kvennakór Suðurnesja fagnar í ár 40 ára afmæli kórsins og mun af því tilefni halda glæsilega tónleika í Íþróttaakademíunni í Reykjanesbæ þann 23. febrúar næstkomandi. Þar mun kórinn fara fyrir einvalaliði söngvara og tónlistarmanna auk þess sem kórfélagar sem hafa dregið sig í hlé koma fram með kórnum í tveimur lögum.
Bigband-stemmning verður á afmælistónleikum kórins þar sem léttsveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar leikur undir en einnig munu þau Dagný Jónsdóttir, sópran, og Bjarni Thor Kristinsson, bassasöngvari, syngja saman dúett og einnig sitt í hvoru lagi.
Stjórnendur verða þau Dagný Jónsdóttir, Eiríkur Árni Sigtryggsson og Karen Sturlaugsson, en þess má einnig geta að á tónleikunum verður frumflutt lag sem Eiríkur Árni samdi sérstaklega í tilefni af 40 ára afmæli kvennakórsins.
Kórinn er raunar elsti starfandi kvennakór landsins, en starfið hefur sjaldan verið öflugra. Því til sönnunar má nefna árangur kórsins á fjölmennu kóramóti sem hadið var á Ítalíu við Gardavatnið síðastliðið haust. Hann vann þar til tvennra gullverðlauna og vöktu kórfélagar einnig mikla athygli þar sem þeir klæddust íslenska þjóðbúningnum við setningarathöfn hátíðarinnar.
Afmælistónleikarnir verða, eins og fyrr segir, á laugardaginn 23. febrúar nk. og hefjast þeir kl. 17. Miðaverð er kr. 2000 og eru allir hvattir til að taka kvöldið frá og njóta skemmtilegrar tónlistardagskrár.