Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Fimmtudagur 14. október 1999 kl. 14:02

GLÆSILEG MÁLVERKASÝNING Í SVARTA PAKKHÚSINU

Þessa daga stendur yfir málverkasýning í sal myndlistarfélagsins, Svarta Pakkhúsinu í Keflavík. Þar sýna Sigurfríð Rögnvaldsdóttir (Fríða) og Sigurbjörg Gunnarsdóttir (Bagga) verk sín. Þarna eru greinilega miklir listamenn á ferð því myndirnar eru hver annarri fallegri. Aðsókn hefur farið fram úr björtustu vonum, 200 manns hafa þegar komið á sýninguna, og þær hafa selt um 18 verk. Fríða segir peningana koma sér vel, því hún er á leið til Belgíu, þar sem hún hyggst búa og vinna að listsköpun. „Við ákváðum í vetur að stíga þetta skref og halda einkasýningu á verkum okkar. Við erum búnar að vera að vinna að undirbúningi hennar allt þetta ár”, sagði Fríða þegar hún var spurð að því hvers vegna þær hefðu farið út í að halda sýningu. Þetta er fyrsta einkasýning þeirra beggja en Fríða tók þátt í samsýningu fyrir nokkrum árum, í Risinu við Hverfisgötu í Reykjavík. Fríða segist hafa málað og teiknað frá því hún man eftir sér en að hún hafi ekki kynnst alvöruteikningu og litameðferð fyrr en hún fór að vinna í Baðstofunni fyrir tólf árum síðan. Bagga byrjað í Baðstofunni árið 1991. En hvað er Fríða að fara að gera í Belgíu? „Maðurinn minn fékk óvænt vinnu í Liege í Belgíu og ákvað að drífa sig. Við erum búin að selja húsið okkar og búin að finna húsnæði í bæ skammt frá Liege. Við komumst svo í samband við konu sem er listamálari og mjög virk í listasamfélaginu þarna. Hún ætlar að vera búin að opna fyrir mér ýmsar leiðir þegar ég kem út”, sagði Fríða og hlakkar auðheyrilega mikið til að takast á við þetta verkefni. En hvert stefnir Bagga? „Það er ómögulegt að segja hvað mér dettur í hug. Það gefur mér mikið að mála og ég fæ alveg helling út úr því að fara í annan heim”, sagði Bagga. Bagga og Fríða viðurkenna báðar að vera forfallnir golfarar og sjá mest eftir að hafa eytt sumrinu í að undirbúa sýninguna. Þær eru sammála um að næsta sýning verði ekki haldin að hausti til. En fá þær ekki innblástur úr golfinu? Þær segja að svo sé og að golfið hreinsi alveg hugann og oft fái þær góðar hugmyndir á golfvellinum. Allir eru hjartanlega velkomnir á sýninguna sem er opinn frá klukkan 20:00-22:00 á virkum dögum og frá klukkan 14:00-18:00 um helgar. Síðasti sýningardagur er sunnudagurinn 17.október.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024