Glæsileg Kia bifreið í fyrstu verðlaun hjá Lions
Í tilefni þess að K. Steinarsson, söluumboð fyrir Öskju í Reykjanesbæ, seldi hundraðasta Kia Picanto bílinn á Suðurnesjum fyrir skömmu veitti bílaumboðið og Lionsklúbbur Njarðvíkur, Velferðarsjóði Suðurnesja 100.777 kr. að gjöf. Styrkurinn kemur sér væntanlega að góðum notum fyrir Velferðarsjóðinn sem mun hafa í nægu að snúast nú þegar jólahátíðin er á næsta leiti. Hjördís Kristinsdóttir hjá Velferðarsjóði Suðurnesja tók við veglegri peningagjöf frá Kjartani Steinarssyni hjá K. Steinarsson.
Ennfremur var tilkynnt að Kia Picanto bifreið yrði í fyrsta vinning í happdrætti Lionsklúbbsins núna um jólin. Dregið verður þann 23. desember og gæti einn heppinn miðaeigandi eignast þennan vinsæla bíl.
„Við viljum taka þátt í því að minna á Lionshreyfinguna og einnig Velferðarsjóðinn. Við hvetjum alla sem geta að hugsa til Velferðarsjóðsins fyrir jólin. Bíllinn verður meðal stærstu vinninga í happdrættinu og verður m.a. til sýnis í Nettó. Vonandi verður einhver heppinn þarna úti sem fær skemmtilega jólagjöf. Glænýr Kia Picanto kostar 1.999.777 kr. og það væri ekki leiðinlegt að vinna svona bíl fyrir jólin. Það verður hægt að nálgast happdrættismiða víða um Reykjanesbæ,“ segir Kjartan Steinarsson, eigandi K. Steinarsson ehf.
Kia hefur notið talsverðra vinsælda á Suðurnesjum í ár líkt og sjá má á sölu bílanna. „Kia er mjög vinsæll hér á Suðurnesjum og við erum búnir að selja hundrað eintök af þessum bíl í ár. Ég er mjög þakklátur fyrir þann stuðning sem Suðurnesjamenn sýna mér,“ bætti Kjartan við. Hann hvetur alla til að verða sér úti um happdrættismiða frá Lionsklúbbi Njarðvíkur og styrkja um leið gott málefni.