Glæsileg dagskrá á Bryggjunni í Menningarvikunni
Menningarvika Grindavíkurbæjar fer fram í næstu viku. Kaffihúsið Bryggjan kemur með glæsibrag inn í menningarvikuna en þeir bræður, Aðalgeir og Kristinn Aðalgeirssynir, fengu menningarverðlaun Grindavíkurbæjar 2011. Þar ber hæst tónleika hinna einu og sönnu Magnúsar Þórs Sigmundssonar og Jóhannes Helgasonar sunnudaginn 17. mars kl. 21:00.
Eftir þá félaga liggja fjölmörg lög sem eru stór hluti af íslenskri dægurlagasögu, lög eins og Ást, Söknuður, Dag sem dimma nátt, Yakety Yak, Þú átt mig ein, Blue Jean Queen, Mary Jane, Seinna meir, She´s Done it Again, Ísland er land þitt o.fl, en mörg þessara laga hafa þeir aldrei flutt sjálfir. Þetta er viðburður sem enginn áhugamaður um íslenska tónlist ætti að láta fram hjá sér fara, Magnús og Jóhann eru lifandi goðsagnir í íslenskri tónlistarsögu
Bandaríska söngkonan McKinley Black verður með tónleika á Bryggjunni laugardaginn 9. mars kl. 21:00. Hún flytur m.a. rokk, blús og kantrý söngva. McKinley Black er bandarísk söngkona búsett í Þýskalandi.
Einn ástsælasti leikari þjóðarinnar, Jóhann Sigurðarson, kemur mánudaginn 11. mars og syngur lög m.a. úr Fiðlaranum á þakinu. Þorsteinn Gauti bróðir Jóhanns leikur undir.
Þriðjudaginn 12. mars kl. 21:00 verður sveitin S2000J með tónleika. Sveitin er fylgitungl hljómsveitarinnar Júpíters og koma allir meðlimirnir úr þeirri merku sveit. Kristinn H. Árnason leikur á gítar, Halldór Lárusson á trommur og Hörður Bragason á hljómborð ýmisskonar. Allar líkur eru á að gesta básúnuleikari heiðri viðburðinn Hljómsveitin daðrar við ýmiss lög Júpíters og er tónlistin undir ríkulegum áhrifum djassskotinnar salsa tónlistar, slavneskrar þjóðlagahefðar og afrísku bræðingsfönki. Tónlistin er teygjanleg og lífræn, danshæf, melankólik og glaðleg, allt í senn.
Þá verður hin vinsæla grindvíska krónika á sínum stað á Bryggjunni í menningarvikunni en hún verður fimmtudaginn 14. mars kl. 21:00. Jafnframt verður útgerðar- og sjómannasýning með munum og myndum alla daga vikunnar.
McKinley Black verður með tónleika á Bryggjunni.