Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Glæða gamla kartöflugarða lífi í Garðinum
Fimmtudagur 13. maí 2010 kl. 13:28

Glæða gamla kartöflugarða lífi í Garðinum

Sveitarfélagið Garður vill skapa aðstöðu fyrir kartöflu- eða nytjagarð í Garðinum í sumar fyrir fjölskyldur og einstaklinga.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


„Hugmyndin byggir á því að nýta Útgarðinn sem er rómantískt útivistarsvæði, sem ég kalla stundum bær í sveit. Þar eru gamlir nytjagarðar sem að stærstum hluta voru notaðir undir kartöflurækt fyrr á árum. Margir þessara garða hafa verið aflagðir en íbúar hafa tekið vel í þá góðu hugmynd að gefa fólki kost á að nýta aðstöðuna. Sveitarfélagið mun plægja garðana að þessu sinni,“ segir Ásmundur Friðriksson, bæjarstjóri í Garði.

Hann segir að með þessu náist upp stemming og umferð fólks vegna ræktunarinnar sem mun setja skemmtilegan svip á þetta einstaka svæði.

„Jafnvel rómantísk stemming þegar fjölskyldur mæta í „Garðinn“ með skrínukost. Huga að ræktuninni, reita arfa og eiga saman stund í kyrrlátu umhverfi sem aftur mun iða af lífi eins og þegar útvegsbændur nytjuðu Útgarðinn og fengsæl fiskimið rétt utan við flasir og flúðir,“ segir Ásmundur og bætir við:  „Það er „jarðvegur“ í samfélaginu til að líta til baka og taka aftur upp gömul og góð gildi þar sem fjölskyldan vinnur saman og dregur björg í bú í leiðinni. Þessi gildi eru aftur komin í tísku og við viljum hjálpa til við það með aðstoð þeirra sem eiga ónýtta kartöflugarða í Útgarði“.


Kostnaður mun ekki verða til þess að draga úr áhuga fólks, gömlu skóflurnar og hrífurnar sóttar í bílskúrinn, hanskar og húfa og allt er klárt. Við uppskeruna í haust greiðir svo hver og einn fyrir sig með því að afhenda eigenda garðsins tíund uppskerunnar fyrir aðstöðuna og góðan hug.


Mynd: Þessi gamli kartöflugarður við Lambastaði verður plægður á næstu dögum. Víkurfréttamynd: Hilmar Bragi Bárðarson