Glaðir Grindvíkingar í Hörpu
Grindvíkingar fjölmenntu í Hörpu á sunnudagskvöld en þá voru haldnir tónleikar sem báru yfirskriftina Samverustund Grindvíkinga. Tilgangurinn var tvíþættur, að skapa samverustund fyrir Grindvíkinga en líka að safna fjármunum til að styðja við börn, unglinga og æskulýðsstarf í Grindavík.
Það voru Fjallabræður, Grindavíkurdætur, Sverrir Bergmann, Jóhanna Guðrún, Ragga Gísla, Una Torfa og félagarnir Auddi Blö og Sveppi sem komu fram og myndaðist frábær stemmning á meðal þeirra fjölmörgu gesta sem mættu í Hörpuna, langflestir frá Grindavík. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, ávarpaði samkomuna og ekki nóg með það, hann tók lagið með Fjallabræðrum og Grindavíkurdætrum. Halldór Gunnar Fjallabróðir stýrði skemmtuninni og hélt hjartfólgna ræðu og var ekki langt frá því að bresta í grát og snerti þar með taug flestra ef ekki allra Grindvíkinga og annarra viðstaddra.
Grindvíkingum var boðið frítt á viðburðinn og var þétt setið í Eldborgarsal Hörpu. Allir sem komu að samverustundinni með einum eða öðrum hætti gáfu vinnu sína. Tónlistarhúsið Harpa veiti afnot af Eldborgarsalnum ásamt öllum tækjum og tæknimönnum án endurgjalds.
Samhliða samverustundinni var staðið fyrir söfnun fyrir nýstofnað styrktarfélag barna í Grindavík en félagið er í stjórn Grindvíkinga ásamt fulltrúum Fjallabræðra og er tilgangur þess að skapa samverustundir fyrir börn og unglinga í Grindavík en eins og staðan er núna er samfélag Grindvíkinga dreift víða um land. Leitað var til fyrirtækja og einstaklinga eftir fjárframlögum og var markmiðið að safna að minnsta kosti þeirri upphæð sem myndi safnast með hefðbundinni miðasölu á tónleika í Eldborgarsal Hörpu.
Á samverustundinni tilkynnti Halldór Gunnar Pálsson kórstjóri Fjallabræðra að tíu milljónir króna hefðu safnast. Ungmenni í Grindavík, foreldrar og þeir sem skipuleggja tómstunda-, íþrótta-, tónlistar- og æskulýðsstarf geta nú leitað til styrktarfélagsins og sótt um styrk til að fjármagna samverustundir, æfingaferðir, afþreyingu, ferðalög, mót og svo framvegis til að stuðla að því að grindvísk ungmenni hittist, rækti vináttuna og samfélagið.
Sérstakar þakkir fyrir stuðninginn fá: Kvenfélag Grindavíkur, Harpa Tónlistarhús, Íslandsbanki, Íslenska gámafélagið, Landsbankinn, Marel, Origo, Phoenix seafood, Samskip, Útgerðarfélag Reykjavíkur, Vörður, Ölgerðin, Össur og Wisefish sem lögðu söfnuninni lið ásamt fjölda annarra fyrirtækja og einstaklinga.
Söfnunin er ennþá opin og eru öll sem geta hvött til að leggja verkefninu lið með því að leggja inn á reikning Styrktarfélags barna í Grindavík.
Kt: 670224-1630
Bankanúmer: 0133 15 007166
Í stjórn Styrktarfélags barna í Grindavík félagsins sitja:
Inga Þórðardóttir, skólastjóri Tónlistarskóla Grindavíkur
Páll Erlingsson, kennari í Grindavík
Þorleifur Ólafsson, framkvæmdastjóri UMFG
Páll Halldór Halldórsson, Fjallabróðir
Hugi Hreiðarsson, Fjallabróðir
Meðfylgjandi myndir tóku Þorgeir Ólafsson og Sigurbjörn Daði Dagbjartsson.