Gítarinn þarf ávallt að vera til taks
Sandgerðingurinn Ólafur Þór verður á Vestfjörðum um helgina
Víkurfréttir spurðu nokkra Suðurnesjamenn út í áform þeirra um verslunarmannahelgina en fólk er ýmist á leið á útihátíðir með vinunum, í sumarbústað með fjölskyldunni eða slaka á heima við og njóta kyrrðarinnar. Tónlistarmaðurinn Ólafur Þór Ólafsson ætlar að vera á flandri um verslunnarmannahelgina. Ólafur er grunnskólakennari og er einnig forseti bæjarstjórnar í Sandgerði.
Hvað á að gera um verslunarmannahelgina og hvert á að fara?
Ég byrja helgina á því að spila á Opnu sviði á Bryggjunni í Grindavík á föstudagskvöldið. Daginn eftir rúlla ég svo til Vestfjarða með krökkunum mínum og við verðum þar eitthvað vel fram yfir helgi. Stórfjölskyldan á hús við Tálknafjörð og þar ætlum við að hreiðra um okkur og vera svo eitthvað á ferðinni um nágrennið svona eins og við nennum. Okkur finnst æðislegt að komast þarna vestur í fjöllinn, fegurðina og rólegheitin. Sumarið er heldur ekki fullkomnað fyrr en maður er búinn að ná að stinga sér a.m.k. einu sinni í Pollinn.
Er einhver verslunarmannahelgi sem er eftirminnilegri en aðrar hjá þér?
Þær eru nú margar skemmtilegar verslunarmannahelgarnar og sögurnar sem eru til frá þeim eru nú ekki allar prenthæfar í virðulegum fréttamiðli. Ég get nefnt að ég var bara 15 ára þegar ég fór með félögum mínu á fyrstu útihátíðina í Húsafelli árið 1987 og var það eftirminnilegur túr. Sem betur fer hefur menningin í kringum þessa helgi breyst frá þeim tíma og í dag þykir ekki eðlilegt að unglingar séu eftirlitslausir á svoleiðis samkomum. Einhverjar helgar hef ég svo bara verið heima og það hefur líka verið fínt og soldið sérstakt að vera á nánast mannlausum Suðurnesjum.
Hvað finnst þér einkenna góða verslunarmannahelgi og finnst þér eitthvað vera ómissandi um þessa helgi?
Ávísun á góða verslunarmannahelgi er góður félagsskapur og að veðrið haldist svona þokkalegt. Ef þetta tvennt er í lagi þá er ekki stórmál hvar maður er á landinu. Og jú gítarinn þarf að vera með. Það er ekki almennileg verslunarmannahelgi nema það sé gítar einhvers staðar nálægt sem er hægt að grípa í.