Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Ginningarfífl gagnvart ofurhetjum
Laugardagur 29. nóvember 2014 kl. 10:16

Ginningarfífl gagnvart ofurhetjum

Sandgerðingurinn Jóhann Jóhannsson les mikið eftir íslenska höfunda. Hljómsveitin Valdimar eru í miklu uppáhaldi hjá Sandgerðingnum en einnig hefur hin ferska reggísveit AmabadamA hrifið hann. Þegar kemur að sjónvarpsglápi þá eiga ofurhetjur hug hans allan. Jóhann er 33 ára nýkrýndur heimsmeistari í Olsen Olsen. Hann er mikill áhugamaður um skegg enda skeggprúður mjög.

Bókin

Ég reyni að lesa sem allra mest. Er kannski ekki með Kafka eða Tolstoj á náttborðinu en reyni að lesa sem flest eftir íslenska höfunda. Núna er ég að lesa bókina Kata eftir Steinar Braga. Sumar bækur leita ég þó oft í og les til dæmis reglulega Fiskur og Fiskur fyrir lífið, en það eru sjálfshjálparbækur sem gefa manni nýja sýn á vinnu og einkalífið. Annars reyni ég eftir fremsta megni að viðhalda þekkingu minni í íþróttafræði með því að lesa bækur og greinar þeim tengdum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Tónlistin

Nýi Valdimar diskurinn er í miklu uppáhaldi hjá mér. Það er einfaldlega enginn maður með mönnum nema að hlusta reglulega á flauelsmjúka röddu Valdimars. Það er stundum sagt að enginn sé spámaður í sínu föðurlandi en svo er ekki með drengina í Valdimar, þeir eiga stóran og öflugan aðdáendahóp á Suðurnesjum og um land allt. Svo er önnur íslensk hljómsveit sem fær mikla hlustun hjá mér en það er AmabadamA. Ég heyrði misvitran útvarpsmann á Bylgjunni missa út úr sér um daginn að hvítir menn ættu ekki að spila reggí. Burt séð frá bullandi fordómum í þessum orðum þá hefur hann greinilega ekki heyrt íslenskt reggí! Svo er ég byrjaður að hlusta á hljómsveitirnar sem búið er að tilkynna á ATP ICELAND næsta sumar. Það er partý sem enginn má láta fram hjá sér fara. Í erlendu deildinni er ég í raun alger alæta. Dett samt oft í fornt en frægt (golden oldies), allt frá Earth, Wind and fire til Ed Sheeran ratar undir nálina hjá mér. Er meira að segja nýbúinn að sjá hinn rauðhærða Sheeran á tónleikum sem voru magnaðir!

Sjónvarpsþátturinn       

Horfi mjög lítið á sjónvarp, en dett inn í eina og eina seríu. Þessa stundina er Gotham þættirnir í miklu uppáhaldi hjá mér. Þeir fjalla um lögreglustjórann Gordon og byrjunardaga hans í lögregluliði Gothams. Ég bíð spenntur eftir nýjustu seríunum af Vikings og Game of Thrones. í kvikmyndadeildinni er ég ginningarfífl gagnvart ofurhetjumyndum í hvaða formi sem er. Síðustu ár hefur verið gósentíð hjá mér þar sem hver hetjumyndin af annarri rennur út eins og heitar lummur í framleiðslulandinu Hollywood, en þó eru það ekki bara bandarískar myndir sem ná mér því ég fann algera gullnámu þegar ég tengdist Netflix. Þar er að finna ógrynni af kínverskum KungFu/ofurhetjumyndum sem ég á til að gleyma mér yfir.