„Gildir að vera heiðarleg með ríka þjónustulund”
-segir Linda María Gunnarsdóttir í tískufatabúðinni Palóma föt og skart í Grindavík. Tók sjö ár að finna fjölina.
„Ég ákvað að stökkva til og skella mér í tískubransann,“ segir Linda María Gunnarsdóttir sem rekið hefur tískufataverslunina Palóma föt og skart í Grindavík undanfarin 14 ár en búðin verður 15 ára í mars á næsta ári. Palóma á sér lengri sögu en Erla Dalbertsdóttir setti hana á laggirnar árið 1984.
Það tók Lindu nokkur ár að finna fjölina í tískubransanum eins og gengur og gerist. Þegar tengdadóttir hennar, Alexandra Marý Hauksdóttir kom til hennar að vinna og hvatti Lindu til þess að opna vefverslun þá fór boltinn að rúlla öðruvísi, með því að vera sýnilegri á veraldarvefnum. Tengdamæðgurnar eru með skýra verkaskiptingu en Linda sér almennt um búðina, meðan Alexandra sér um vefverslunina og samfélagsmiðlana.
Efasemdir í byrjun
Linda sem er Njarðvíkingur að uppruna, lét plata sig hinum megin við Þorbjörn og flutti til Grindavíkur árið 1997. „Ég var búin að vera vinna hjá Georg V.Hannah skartgripaverslun í Reykjanesbæ en tók fljótlega við bókhaldi og almennri skrifstofuvinnu fyrir Jón & Margeir ehf. Þegar ég svo frétti að Erla væri að fara selja verslunina, ákvað ég að stökkva til en þetta var sælla minninga, rétt áður en bankahrunið skall á. Byrjunin var því ansi erfið og oft á tíðum var ég með efasemdir hvort ég hefði gert rétt. Ég var lengi að finna út hvernig ég vildi hafa búðina, þ.e. hvernig vöruúrval ég vildi geta boðið upp á en allt í einu small þetta allt einhvern veginn saman, um svipað leyti og Alexandra tengdadóttir mín nánast píndi mig í að fá mér heimasíðuna www.paloma.is. Hún kom þá meira að rekstrinum, sá um heimasíðuna, kunni allt á samfélagsmiðlana og segja má að frá og með 2016 sé gangurinn búinn að vera góður - meira að segja í COVID,“ segir Linda.
Alexandra rifjaði upp hvernig heimasíðan www.paloma.is fæddist. „Það var skemmtileg tilviljun að strákar frá fyrirtækinu Viska sem setur upp heimasíður, voru staddir í Grindavík vegna heimasíðugerðar fyrir fyrirtæki hér í bæ og komu við í heimsókn. Við Linda vorum báðar á staðnum þegar þeir komu við og vorum við ákveðnar að slá til eftir skemmtilegt spjall við þá.”
Gekk vel í heimsfaraldri
Linda segist hafa fengið sjokk þegar heimsfaraldurinn skall á.
„Auðvitað fékk ég sjokk þegar COVID skall á, það fór enginn neitt og maður mátti varla hafa búðina opna en þá var gulls ígildi að vera með góða vefverslun. Á þessum tíma var kominn tími á útsölu, og þá voru góð ráð dýr þegar við gátum nýtt vefverslunina fyrir lagerhreinsun sem var auglýst vel á samfélagsmiðlum og höfðum við varla undan að pakka inn vörum”.
Linda segir að Danir standi framarlega í hönnun tískufatnaðar.
„Ég er með eitt spænskt merki en allt annað tek ég frá Danmörku. Mér finnst hentugt að skjótast þangað á sýningar en eins fer ég alltaf tvisvar á ári til Barcelona á sýningar, neita því ekki að ég lít á þær ferðir sem frí í leiðinni, samhliða að skoða tískusýningarnar og fara á þá fundi sem ég er búin að bóka fyrirfram og panta inn fyrir búðina. Ég er með öll helstu íslensku merkin í skartgripum, tel mig algjörlega á heimavelli þegar kemur að þeim en ég var auðvitað búin að vinna lengi í skartgripabúð og bý að þeirri reynslu.“
Linda litríka
„Maður þarf auðvitað að hafa ákveðna tilfinningu fyrir tískustraumunum en hér áður fyrr var allt svart-hvítt á haustin. Það er búið að breytast en ég hef alltaf verið frekar litrík í minni tísku. Ég hef alltaf lagt mig fram við að vera vel til höfð en það er eitt, annað er að geta ráðlagt kúnnanum. Þá gildir að vera heiðarleg og með ríka þjónustulund. Ég var fljót að komast upp á lagið með þetta og reyni mitt allra besta í að kúnninn gangi sáttur út,” segir Linda.
Alexandra einbeitir sér mest að netinu. „Í dag skiptir mjög miklu máli að vera virkur á samfélagsmiðlunum. Við finnum alltaf vel fyrir umferð á síðunni og í búðinni þegar við auglýsum og eins höfum við nýtt okkur áhrifavalda. Magnað að sjá hvernig áhrifin frá áhrifavaldi geta aukið söluna.”
Gullni hringurinn í Grindavík
Linda hefur notið góðs af veitingastað Höllu. „Það má líka segja að við vinkonurnar, ég og Halla njótum góðs af hvorri annarri en við erum í sama verslunarkjarna. Mjög algengt er að hópar komi og borði í hádeginu hjá Höllu, komi svo við í búðinni hjá mér. Það er að verða vinsæll hringur hjá konum að koma til Grindavíkur, kíkja við hjá mæðgunum á VIGT, í handverksbúðinni hjá Vigni Kristins eftir að búið er að kíkja á okkur Höllu. Nú þurfum við bara flottan miðbæjarkjarna í Grindavík, þá erum við orðinn flottasti bær landsins,“ sagði Linda að lokum.