Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Mannlíf

Geymslan varð að gistiheimili
Bjarni Geir fyrir utan gistiheimilin tvö í Keflavík og hótelbíl úr Eyjum. VF-mynd/pket.
Þriðjudagur 19. júní 2018 kl. 06:00

Geymslan varð að gistiheimili

-Bjarni Geir Bjarnason rekur tvö gistiheimili í Keflavík og hótel í Vestmannaeyjum

„Lífið er oft ein tilviljun og má eflaust segja það með mig þegar ég fór í gistihúsa- og hótelbransann,“ segir Keflvíkingurinn Bjarni Geir Bjarnason sem nú rekur tvö gistiheimili í heimabænum og svo hótel í Vestmannaeyjum.

Margir Keflvíkingar muna eftir Bjarna Geir frá yngri árum í verslun og þjónustu, m.a. sem meðeiganda í Stórmarkaði Keflavíkur og í afgreiðslustörfum í Fríhöfninni. Á þessum stöðum kunni Bjarni Geir vel við sig en hann er einn af þeim sem er þjónustulund í blóð borinn. Vill allt fyrir alla gera og veit ekki hvað nei þýðir. Bjarni Geir er léttur í lundu og eitt af því sem hann gerir til að viðhalda því er að syngja með Sönghópi Suðurnesja. „Þetta er frábær hópur undir stjórn Magga okkar Kjartans. Þó allir séu áhugasamir er hann líklega límið sem heldur hópnum saman enda snillingur á ferð,“ segir Bjarni aðspurður út í tónlistarmanninn kunna.

Public deli
Public deli

Úr geymslu í gistiheimili

Fréttamaður VF hitti Bjarna Geir til að spyrja hann út í þessi nýju ferðaþjónustuævintýri hans en á tveimur árum var hann orðinnn hóteleigandi í Eyjum eftir að hafa fengið gistihúsabakteríuna í Keflavík en þar rekur hann tvö gistiheimili. Það liggur beint við að spyrja Bjarna hvað hafi rekið hann út í ferðaþjónustuna en eru ekki peningarnir þar núna? Hann hlær en því er hann ekki óvanur. Setur svo á sig alvarlega svipinn þegar hann byrjar að svara. „Ég hafði átt geymslu í Keflavík í mörg ár og eins skrýtið og það kann að hljóma þá var hún alltaf full drasli sem aðrir en ég áttu. Svo ég ákvað upp úr þurru að selja hana og fékk pening sem ég gat notað í start til að byrja í rekstri gistiheimilis við Hafnargötu 58 í Keflavík. Auglýsti á hótelsíðum og var allt í einu farinn að skipta á rúmum og þrífa. Gera eitthvað sem ég hef aldrei gert. Ég er vel giftur sjáðu til og þetta eru verkefni sem ég hef ekki séð um á mínu heimili,“ sagði Bjarni Geir léttur og hlær. Heldur svo áfram. „Þetta byrjaði nú ekki með neinum látum og ég greiddi með mér fyrstu þrjá mánuðina en þetta fór vaxandi og það nokkuð hratt. Þetta er mikil yfirlega, sólarhringsvinna. Þeir sem eru í gistihúsabransanum þekkja það. En ég var ekki ósáttur við og þetta gekk vel. Betur en ég átti von á þegar leið á. Þetta er mjög skemmtilegt og áður en maður veit af er maður farinn að lána útlendingum bílinn og ræða við þá um heima og geima,“ segir Bjarni Geir sem var farinn að þvo rúmföt og skúra á fyrstu dögum ársins 2016.

Það kom fáum á óvart að ári síðar var Bjarni Geir búinn að kaupa næsta hús, eldra einbýlishús við Hafnargötu 56 í Keflavík. Ekkert hik á okkar manni en í þessu gistiheimili þar sem meðal annars hefur verið leigubílastöð og efnagerð í viðbyggingunni sem nú er horfin eru 7 herbergi en í hinu húsinu eru einnig sjö. Bjarni Geir segir að hann hafi notast mikið við þekktar hótel vefsíður á borð við Booking en hafi bætt Expedia fljótlega við og þannig hafi eftirspurnin aukist, sérstaklega hjá Bandaríkjamönnum. „Ég er búinn að láta teikna fyrir mig viðbyggingu við húsið þar sem Efnagerð Austurlands var í gamla daga, 15 til 18 íbúðir á 3 hæðum. Það myndi styrkja reksturinn enn frekar og ég er aðeins að sofa á þeirri hugmynd.“

Allt er þegar þrennt er

Allt er þegar þrennt er segir einhvers staðar og vinir Bjarna Geirs segja hann vera áhættufíkil. Hann hlær þegar hann segir frá þessu en í ársbyrjun 2017 lá leið hans til Vestmannaeyja. Og jú, honum var í einhverju bríaríi boðið hótel á góðum stað í Eyjum til kaups, Hótel Eyjar. „Mér fannst þetta nú nett galin hugmynd en ég fór út í eyju og eftir að hafa skoðað þetta ákvað ég að slá til. Keypti hótelbyggingu sem hafði verið í rekstri í mörg ár með 15 herbergjum, þar af sex tveggja manna stúdíóíbúðum. Ég fór í kjölfarið til Eyja um vorið og var langt fram á árið þar. Þetta er skemmtilegt hótel alveg niður í bæ þó svo að fjarlægðir séu yfirleitt ekki að angra Eyjamenn. En við erum bara rétt við höfnina. Fólk rambar inn til okkar úr Herjólfi. Það er bara þannig.“

Sumarið gekk vel en Bjarni Geir segir að þessi óvissa með Landeyjarhöfn og siglingar Herjólfs trufli vissulega reksturinn og hann sem og fleiri hafi tapað peningum á því. Hann lokaði hótelinu í lok árs og var með lokað í um tvo mánuði en í upphafi 2018 hefur reksturinn verið með ágætum. Japanskir loðnukaupendur hafi til dæmis gist hjá honum á meðan loðnuvertíð var og svo séu bókanir mjög góðar langt fram yfir sumar. Bjarni segir að margar ráðstefnur í Eyjum hafi hjálpað til og svo er sumarið alltaf mjög sterkt og margir viðburðir í menningu og íþróttum dragi margt fólk á staðinn. Hann hefur í hyggju að byggja við hótelið, gera alvöru móttöku og utanáliggjandi lyftu úr gleri þannig að hún verði nokkurs konar útsýnislyfta.

Magnaður staður

Við spyrjum hann út í reksturinn í Eyjum. „Ég sé um morgunmatinn,“ svarar hann að bragði og brosir. „Ég sameina frágang gesta á greiðslum og morgunmatinn. Það fer ágætlega saman. Það hefur verið mikil ánægja með morgunmatinn og við höfum fengið mjög góðar umsagnir. Þjónustulundin maður, hún skiptir miklu máli og ég á nóg af henni.“

Bjarni segir að ferðamennska sé öðruvísi í Eyjum en á Suðurnesjum. Ferðamenn sem komi til Eyja og ætli sér bara að stoppa stutt ílengist iðulega og taki auka nótt eða tvær þegar þeir sjá og byrja að upplifa staðinn. „Þetta er náttúrulega magnaður staður og engum líkur en það er  Reykjanesið líka. Við höfum fundið fyrir því að ferðamenn eru farnir í auknum mæli að gista þar lengur eða jafnvel alveg og keyra þaðan á þá ferðamannastaði sem þeir vilja. Gistimöguleikar hafa aukist í og við Keflavík og hægt að velja úr góðri flóru. En almennt eru útlendingar mjög hrifnir af Íslandi, sama hvaðan þeir koma. Það hefur verið aukning í komu Bandaríkjamanna og ég fann það sérstaklega þegar ég fór að nota Expedia hótelvefinn en svo er líka aukning í Asíufólki. En auðvitað hjálpar ofur sterk króna okkur ekki.“

Munur á Eyjum og landi

Það er ekki hægt að hitta Bjarna Geir öðruvísi en að spyrja hann út í Eyjamenn og muninn á því að vera þar og á Suðurnesjum. Hann er ekki lengi að svara þeirri spurningu. „Eyjamenn eru allt öðruvísi þenkjandi en við uppi á landi. Stressið á Eyjunni er miklu minna þó fólki vinni mikið. Hér kemur píparinn bara þegar hann getur. Svo eru fleiri sérvitringar í Eyjum,“ segir okkar maður og skellir upp úr en bætir því við að hann hafi nú fengið viðurnefnið „Eyjagleypir“ fljótlega eftir komuna til Eyja.

En svona í lokin spyrjum við Bjarna Geir hvort maður þurfi ekki að vera vel giftur til að geta verið í svona ævintýrum. Engin hlátur núna heldur alvarlegur svipur á okkar manni í lokasvarinu: „Ég hef lent í ýmsu á ævinni en konan mín er minn heimaklettur og hefur umborið mig í öll þessi ár. Við höfum eignast fjögur börn og barnabörnum fjölgar og erum alsæl.“

Með Suðurnesjamenn í sólarhrings Þjóðhátíð

Bjarni Geir segir þegar hann er spurður út í margar hátíðir í Vestamannaeyjum að heimamenn líti margir á goslokahátíð sem sína hátíð en hún er mánuði fyrr en Þjóðhátíð. Margir Eyjamenn fari upp á land á Þjóðhátíð. Stemmningin sé frábær á báðum hátíðum en hann sjálfur hefur nokkur undanfarin ár verið með sólarhringsferð á Þjóðhátíð fyrir Suðurnesjamenn. „Ég fékk rútu hjá Hópferðum Sævars og fór fyrst fyrir nokkrum árum. Ég næ í hópinn í Keflavík á sunnudagsmorgni og kem þeim út í eyju á rútunni þar sem fólk hefur griðastað þennan sólarhring og skila hópnum svo aftur til baka um sólarhring síðar. Þetta hefur gengið vel og ég á von á því að vera með tvær rútur núna. Ég græja sem sagt allan pakkann með miða í dalinn og við fylgjumst með brekkusöngnum á sunnudagskvöldi sem er hápunktur hátíðarinnar. Það er ótrúlega skemmtilegt að fylgjast með því þegar dalurinn er tendraður eftir brekkusönginn. Algerlega einstök upplifun,“ segir Bjarni Geir.



Útsýnið úr svölunum frá Hótel Eyjum.



Suðurnesjahópur á leið á þjóðhátíð með Bjarna Geir.



Bjarni Geir sér um morgunverðarhlaðborðið. Hér eru gestir frá Suðurnesjum í góðum gír.



Það hafa nokkrir þjóðkunnir gestir gist hjá Bjarna Geir í Eyjum.

Séð inn í eitt herbergið á hótelinu.