Getur ekki hlustað á sjálfan sig
„Þetta er ofboðslega skemmtilegur vinnustaður og mikið líf í gangi,“ segir Ingi Þór Ingibergsson, þrítugur Keflvíkingur sem starfar hjá Ríkisútvarpinu bæði sem tæknimaður og stjórnandi útvarpsþáttarins Næturvaktin um helgar. Einhverjir kannast líklega við rödd Inga en hann hefur setið þar við hljóðnemann í beinni útsendingu á laugardagskvöldum frá klukkan 22:00 - 2:00 undanfarin þrjú ár eða svo, en hann hóf störf sem tæknimaður hjá Rás 1 í fréttadeildinni eftir nám í Englandi.
„Ég var að vinna á lyftara í fraktinni hjá Icelandair og ákvað að skella mér í nám erlendis.“ Ferðinni var heitið til Manchester á Englandi þar sem Ingi nam upptökutækni og stjórnun. Ingi var í eitt og hálft ár í Manchesterborg og bjó þar í þriggja hæða húsi með sjö sambýlingum. „Þetta er virkilega skemmtileg borg. Þarna eru mjög mikið af háskólanemum og því mikið af ungu fólki sem þyrstir í tónleika, tónlistarlífið er mikið og stóru böndin koma alltaf við í borginni.“ Ingi kunni vel við það enda hefur hann verið mikið í kringum tónlist frá unga aldri. „Þetta var eins og að vera á Hróarskeldu í eitt og hálft ár,“ segir Ingi sem hefur verið viðloðandi tónlist frá unga aldri en Ingibergur Kristinsson faðir Inga, er í hljómsveitinni Hinir Guðdómlegu Neanderdalsmenn. Hann er einnig í bílskúrsbandi sem heitir Hippar í handbremsu. Hinir Guðdómlegu Neanderdalsmenn gáfu nýlega út plötu þar sem Ingi Þór stjórnaði upptökum en þeir feðgar reka saman upptökuverið Stúdíó Lubbi sem er staðsett í bílskúrnum við æskuheimili Inga að Vallargötu í Keflavík.
Eftir að námi lauk þá flutti Ingi aftur til Keflavíkur og ætlaði hann sér að klára stúdentsprófið í Fjölbrautaskólanum. Hann hóf nám í FS en sótti um vinnu hjá Ríkisútvarpinu engu að síður enda lá áhuginn á því sviði. Þar fékk hann vinnu árið 2006 og hóf ferilinn í útvarpi sem tæknimaður á Rás 1. Þar sat hann sem fastast í rúm þrjú ár og fluttist svo yfir í Síðdegisútvarpið og Spegilinn á Rás 2 og starfaði mikið hjá fréttastofunni sem honum líkaði vel. „Það var bara einn ungur strákur hérna þegar ég byrjaði en það hafa miklar breytingar í þeim málum átt sér stað síðan þá,“ enda er nám tækni- og hljóðmanna sífellt að verða vinsælla.
Maður segir ekki nei við svona tækifæri
Þegar þessi staða losnaði á næturvaktinni á laugardagskvöldum þá kom nafn Inga upp á borðið. „Ég var ekkert að sækjast eftir þessu en Ágúst Bogason og Ólafur Páll Gunnarsson vildu fá einhvern í þáttinn sem þekkti inn á þetta,“ og þeir komu að máli við Inga. „Ég spurði þá hvort það væri ekki í lagi með þá en ákvað þó að hugsa málið. Ég horfði svo bara á þetta sem ákveðið tækifæri, maður á aldrei að segja nei við svona tækifærum og ég samþykkti því að vera með.“
Þegar Ingi er inntur eftir því hvernig fyrsti þátturinn í beinni útsendingu hefði gengið þá lét hann flakka nokkur vel valin orð sem ekki er við hæfi að birta á prenti. „Ég var svo stressaður. Þetta var alveg hrikalegt,“ en Ingi hefur ekki ennþá getað hlustað á þann þátt. „Ég hlusta reyndar ekki á sjálfan mig en mér hafði verið ráðlagt að gera það svo maður geti lagað það sem maður er að gera vitlaust, ég meika það bara ekki,“ segir Ingi og hlær. Eftir því sem þættirnir urðu fleiri þá fannst Inga þetta bráðskemmtilegt og upp er kominn nokkuð dyggur hlustendahópur og hlustun á þáttinn er góð að sögn Inga.
Fyrir þá sem ekki hafa hlustað á Næturvakt Rásar 2 þá er mikið um það að fólk hringi inn og biðji um óskalög, oftar en ekki endar það með ágætis spjalli. Ingi er sjálfur afar mannblendinn og hann kann afar vel við að fólk hringi inn í þáttinn til þess að spjalla.
„Ég lít á þennan þátt sem þáttinn okkar allra. Við erum öll að búa til þennan þátt, ekki bara ég. Allir sem hringja inn fá að láta ljós sitt skína,“ en Ingi segir að ekki sé mikið um dagskrárgerð í þættinum. „Fyrsta hálftímann spila ég tónlist sem ég hef valið sem fær kannski ekki mikið að heyrast í útvarpi, en það er engin eiginleg dagskrárgerð.“
Vinnutíminn er kannski ekki eins og hjá flestum en þátturinn er frá klukkan 22:00 til 2:00 á nóttunni. Það eina sem Ingi sér slæmt við vinnutímann er að þetta slítur alveg í sundur helgarnar en þó er hann orðinn fjölskyldumaður og er að mestu leyti hættur að lyfta sér upp um helgar. „Þátturinn er hvert einasta laugardagskvöld og alltaf í beinni útsendingu. Það er ekkert hægt að taka svona þátt upp fyrirfram,“ en þó getur Ingi reddað sér fríi ef fjölskyldan vill bregða undir sig betri fætinum. Guðni Már Henningsson sem stjórnar þættinum á laugardögum, hleypur undir bagga með Inga og öfugt.
Mesta lægð sumarsins og brúðkaupið utandyra
Eiginkona Inga heitir Anna Margrét Ólafsdóttir og börnin þeirra heita Bergrún Björk og Skarphéðinn Óli. Þau Ingi og Anna gengu í það heilaga í sumar. Versta verðurspá sumarsins var helgina sem þau giftu sig en þau létu það ekki á sig fá og gengu í það heilaga undir berum himni þann 21. júlí síðastliðinn. Athöfnin fór fram á sumarbústaðajörð við Laugarvatn þegar djúp lægð gekk yfir landið. „Ég fór í nett þunglyndiskast þegar pabbi hringdi í mig daginn fyrir brúðkaupið og tjáði mér að spáin væri hræðileg. Maður var þó fljótur að rífa sig upp og finna bara leið til þess að gera þetta að veruleika,“ segir Ingi en betur fór en á horfðist og athöfnin og veislan heppnuðust einstaklega vel.
Enginn peningur í hljómsveitarstússi
Ingi starfar enn sem tæknimaður á daginn og honum líkar afskaplega vel í Efstaleitinu þar sem Rúv er til húsa. En í hverju felst starf tæknimannsins? „Ég þarf að sjá til þess að öll stef séu klár og ég þarf sérstaklega að passa upp á tímasetningar í þáttum og fréttum. Tíminn skiptir miklu máli þegar fréttamenn eru t.d. að bóka viðtöl og annað þá þarf að púsla þessu rétt. Passa þarf að fréttamenn fari ekki yfir á tíma og alltaf sé pláss fyrir næsta innslag eða viðtal. Svo reyni ég að velja lög við hæfi og passa að heyrist vel í öllum, eins þarf flæðið að vera gott,“ en starf tæknimannsins er fjölbreytt. „Við tæknimennirnir erum í raun að framleiða þessa þætti þó svo að launin séu kannski ekki í samræmi,“ segir Ingi og hlær við. „Þannig er vinnan bara og maður er samviskusamur í þessu.“
Ingi er mikið í því að klippa og hljóðskreyta efni og þar fær hann útrás fyrir því sem hann elskar að gera. „Það er að vinna í hljóði, og finnst mér mjög skemmtilegt að geta dundað mér í því.“
Ingi hefur verið viðloðinn tónlist frá unga aldri og verið í ýmsum hljómsveitum. Hann hefur einnig verið að fást við upptökur á tónlist eins og áður segir. „Ég er alveg hættur í öllu hljómsveitarstússi. Það er enginn peningur í því. Nú er maður bara í því sem gefur af sér,“ segir Ingi og hlær.
Varðandi framtíðina í útvarpsbransanum þá hefur Ingi ekki mikið verið að velta henni fyrir sér. Hann segist ánægður í núverandi stöðu. „Ég vil bara halda þessu áfram og sjá hvert það leiðir mig. Ég hef gaman af þessu og er hamingjusamur.“