Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Get eiginlega ekki beðið lengur eftir að geta lifað eðlilegu lífi
Laugardagur 24. apríl 2021 kl. 07:35

Get eiginlega ekki beðið lengur eftir að geta lifað eðlilegu lífi

Halldóra G. Jónsdóttir hefur verið dugleg að ganga, prjóna og baka súrdeigsbrauð í kófinu.

Halldóra G. Jónsdóttir, aðstoðarkona bæjarstjóra Reykjanesbæjar, segir veturinn eftirminnilegan vegna Covid-19 en hún segir engin plön á teikniborðinu um að fara til útlanda. Svo hefur hún verið dugleg að fara í gönguferðir, baka súrdeigsbrauð og prjóna.

–Hvað er efst í huga eftir veturinn?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Þetta hefur auðvitað verið eftirminnilegur vetur vegna bæði kórónuveirunnar sem snertir einhvern veginn allt okkar líf og svo jarðhræringanna hér á skaganum – en ætli þakklæti sé ekki bara efst í huga, að hvorki ég né mínir nánustu hafi fengið veiruna eða þurft að fara í sóttkví, „sjö, níu, þrettán“.“

– Er eitthvað eftirminnilegt í persónulegu lífi frá vetrinum?

„Þetta hefur verið fremur tíðindalítill vetur í persónulega lífinu. Notalegar stundir með fjölskyldu og vinum, göngutúrar, súrdeigsbakstur og prjón hafa einkennt veturinn hjá mér.“

– Hversu leir ertu orðin á Covid?

„Ég hef nú tekið þessu ástandi með nokkru jafnaðargeði síðastliðið ár en verð að viðurkenna að þetta er aðeins farið að taka á og get eiginlega ekki beðið lengur eftir að geta lifað eðlilegu lífi.“

– Ertu farin að gera einhver plön fyrir sumarið, ferðalög t.d. Ætlarðu til útlanda?

„Nei, engin plön um ferð til útlanda. Að öllu óbreyttu er stefnan tekin á ættarmót á Ísafirði og svo förum við yfirleitt a.m.k. eina ferð norður á Akureyri og heimsækjum ættingja þar. Síðasta sumar ferðuðumst við um Vestfirðina á húsbíl sem heppnaðist einstaklega vel svo við tökum e.t.v. annan húsbílahring í ár.“

– Hvað myndir þú gera ef heimurinn yrði Covid-frír í næstu viku?

„Ætli ég myndi ekki bara panta mér ferð til útlanda.“

– Uppáhaldsmatur á sumrin?

„Sushi.

– Uppáhaldsdrykkur á sumrin?

„Rósavín og engiferöl.“

– Hvert myndir þú fara með gest á Reykjanesinu fyrir utan gosslóðir?

„Ég hugsa að ég myndi fara út á Garðskaga og taka  göngutúr í kvöldsólinni. Svo labbaði ég líka í fyrsta sinn um daginn skemmtilegan stikaðann hring frá Reykjanesvita, meðfram sjónum og að Gunnuhver. Þar er hægt að upplifa bæði fallega náttúru og fuglalíf.“

– Hver var síðasta bók sem þú last?

„Ég las „Götu mæðranna“ eftir Kristínu Maríu Baldursdóttur og svo er ég að lesa núna mjög áhugaverða bók um öndun, „Breath“ eftir James Nestor.“

– Hvaða lag er í uppáhaldi hjá þér núna?

„Líklega „Rólegur kúreki“ með Bríeti en svo er „Veldu stjörnur“ með Ellen Kristjáns og John Grant að koma sterkt inn á listann minn.“

– Hvað viltu sjá gerast í þínu bæjarfélagi á þessu ári?

„Maður óskar þess auðvitað að það fari eitthvað að rofa til í öllum þessum takmörkunum sem við búum við svo atvinnulífið komist í samt lag. Vonandi fyllist svo skaginn af áhugasömum ferðamönnum í sumar að skoða gosstöðvarnar og upplifa í leiðinni allt það sem Reykjanesið hefur upp á að bjóða.“