Gestir hvattir til að taka þátt í lifandi listasýningu
Afbygging stóriðju í Helguvík opnuð í Listasafni Reykjanesbæjar um helgina
Vel var mætt á opnunarhóf fyrir sýninguna Afbygging stóriðju í Helguvík sem var haldið í Listasafni Reykjanesbæjar um helgina. Listamennirnir hvetja gesti til að taka þátt í samtalinu með þeim því sýningin er lifandi og tekur breytingum meðan á sýningartímanum stendur.
Afbygging stóriðjunnar í Helguvík stendur til sunnudagsins 28. apríl 2024 en það er listamannateymið Libia Castro & Ólafur Ólafsson sem vinnur verkið sem er verk í vinnslu og unnið í samstarfi og samtali Libiu & Ólafs við Töfrateymið, Andstæðinga stóriðju í Helguvík, aðra umhverfisverndarsinna, hagfræðing, íbúa Reykjanesbæjar og nærsamfélaga og sýningarstjórann Jonatan Habib Engqvist.
Listamennirnir mæla með því að fólk komi oftar en einu sinni yfir sýningartímann og taki þátt í samtalinu með þeim því sýningin er lifandi og tekur breytingum meðan á sýningartímanum stendur.
Libia Castro & Ólafur Ólafsson hófu samstarf sitt í Hollandi árið 1997. Þau vinna þverfagleg samvinnuverkefni; með vídeó, ljósmyndun, hljóðskúlptúr og margmiðlunarinnsetningar. Libia & Ólafur fóru fyrir hönd Íslands á Feneyjartvíæringinn árið 2011. Þau hafa sýnt verk sín í almannarýmum í ólíkum borgum víða um Evrópu og haldið einkasýningar um heim allan.
Jonatan Habib Engqvist er alþjóðlegur sýningarstjóri og höfundur. Frá 2021 hefur hann starfað sem ritstjóri Ord&Bild.
Sýningin er styrkt af Safnasjóði. Listamennirnir eru styrktir af Myndlistarsjóði og Myndstef.
Meðfylgjandi ljósmyndir frá opnuninni tók Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta.