Gestir á heimatónleikum sæki armbönd
Skipuleggjendur heimatónleika í gamla bænum vilja koma því á framfæri við tónleikagesti að þeir þurfa að nálgast armbönd og kort í Duushúsum fyrir lokun í dag.
Til þess að fá inngöngu í húsin þarf að sýna armbönd og á kortinu má sjá staðsetningu húsanna.
Uppselt var á heimatónleikana á nokkrum klukkustundum en þó höfðu skipuleggjendur fjölgað miðum um helming frá árinu áður.
Að sögn Dagnýjar Maggýjar sem situr í undirbúningshóp heimatónleikanna er það leitt að færri komust að en vildu en hins vegar verði að hafa í huga að miðafjöldi er takmarkaður þar sem tónleikarnir fara fram í heimahúsum.
„Þetta er þó lúxusvandamál og auðvitað erum við glöð með það að fólk taki þessum viðburði svona vel. Að þessu sinni taka sex hús þátt sem er fjölgun frá síðasta ári og gaman að sjá þegar ný hús koma inn þótt önnur detti út. Fjöldi listamanna hefur heldur aldrei verið meiri en í nokkrum húsum er boðið upp á tvær hljómsveitir."
Að sögn Dagnýjar er allt að verða klárt fyrir kvöldið virðist sem veðurguðirnir ætli að vera hliðhollir heimatónleikunum enda nokkrir viðburðir í heimagörðum.
„Við bjóðum tónleikagesti velkomna heim, sjáumst kát í kvöld."