Gerir ráð fyrir að þurfa að sjá um utanríkismál þjóðarinnar
Komst í elítuhóp 0,5% þjóðarinnar
Jóhann Snorri Sigurbergsson er forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá HS Orku, stjórnarmaður í stjórn knattspyrnudeildar Keflavíkur, gallharður púllari og ákkúrat nógu gamall til að muna eftir síðasta Englandsmeistaratitli liðsins.
Hér má lesa umfjöllunina í síðasta tölublaði Víkurfrétta - smellið hér!
– Líturðu björtum augum til sumarsins?
Það er erfitt að líta ekki björtum augum til sumarsins þrátt fyrir ástandið þar sem að ég á von á barni á næstu dögum, verður vonandi komið í heiminn þegar þetta birtist. Þá geri ég ráð fyrir því að Liverpool verði krýnt Englandsmeistari í sumar sem ég vonast til að fagna á litla Anfield í hópi góðra manna og að Keflavík komist í efstu deild í fótbolta.
– Hver eru þín áhugamál og hefur ástandið haft áhrif á þau?
Ég er mikill áhugamaður um knattspyrnu og sit í stjórn knattspyrnudeildar Keflavíkur. Þannig að ástandið hefur haft heilmikil áhrif á það. Ég er blessunarlega bara góðveðursgolfari þannig að ekki hefur reynt á áhrifin þar ennþá.
– Áttu þér uppáhaldsstað á Íslandi og hver er ástæðan?
Þetta er merkilega erfið spurning en Jökulsárhlíð fyrir austan hvar ég var í sveit sem gutti á Hrafnabjörgum 2 kemur upp í hugann. Sigmundur Davíð var þó ekki skráður í sveit á næsta bæ á þeim tíma enda þegar kominn í eyði. Hefði verið gaman að hafa kallinn samt á næsta bæ.
– Hvað stefnirðu á að gera í sumar?
Ég geri ráð fyrir að stór hluti af sumrinu fari í að venjast því að vera með hvítvoðung á heimilinu og stilla það saman við hin þrjú börnin sem búa hjá okkur aðra hverja viku. Eina sem er fast í hendi varðandi ferðalög er vikuferð norður yfir verslunarmannahelgina. Það verður þó pottþétt ekki eina ferðin út fyrir bæjarmörkin. Þá geri ég ráð fyrir því að það verði þétt dagskrá hjá okkur í kringum Keflavíkurliðið í þéttspiluðu móti. Svo ætla ég að finna golfkylfurnar og sjá hvort ég geti orðið jafn góður og ég held að ég sé í þeirri íþrótt. Svo ætla ég að reyna að hemja mig á trampólíninu með börnunum og vonandi ekki þurfa að fara með fleiri á spítala eftir leik þar (það fór þó betur en á horfðist).
– Hver voru plönin áður en veiran setti strik í reikninginn?
Í raun er ekki mikil breyting á plönum sumarsins sem voru lituð af barneigninni en við höfðum sett stefnuna á tveggja vikna sólarlandaferð með haustinu – bjartsýnin á að það gangi eftir minnkar með hverjum deginum. Þá er líka eins gott að Siggi Stormur hafi rétt fyrir sér með að sumarið verði gott.
– Hvernig hefur tilveran verið hjá þér undanfarnar vikur, hefur margt breyst?
Eins og hjá öllum hefur tilveran verið mjög furðuleg síðustu vikur. Vegna samfélagslegs mikilvægis HS Orku vorum við flest látin vinna heima frekar snemma í ferlinu til að minnka smithættur til þeirra sem í raun framleiða fyrir okkur rafmagn og heitt vatn, altsvo þá sem kunna á takkana í orkuverinu. Mér tókst þó að komast í elítuhóp u.þ.b. 0,5% þjóðarinnar sem hefur greinst með veiruna. Ég var sæmilega heppinn þó með áhrifin á mig sem voru frekar væg miðað við marga.
– Hvernig er heilsan eftir að hafa veikst af COVID-19?
Heilsan er fín eftir veikindin. Ég fann aðeins fyrir öndurfæraerfiðleikum í veikindunum sem gerði það að verkum að maður var ekki mikið að hlaupa um. Það tók smá tíma að komast yfir það eftir að ég náði heilsu en ég er orðinn góður af því og get farið í fótbolta og körfubolta með börnunum aftur og sýnt þeim listir á trampólíninu. Í ljósi frétta af takmörkunum á utanlandsferðum og að jafnvel bara þeir sem eru með ónæmi fái að ferðast geri ég ráð fyrir, ásamt nokkrum öðrum, að þurfa að sjá um utanríkismál þjóðarinnar.
– Varðstu mjög veikur?
Ég varð aldrei mjög veikur en upplifði hefðbundin flensueinkenni í um tvær vikur. Ég vissi í raun um leið og ég varð veikur að ég væri með veiruna þar sem ég hef verið svo heppin að ég veikist nánast aldrei af hefðbundnum umgangspestum. Þegar ég greinist voru öll þrjú börnin hjá okkur þannig að við vorum fimm saman á heimilinu innilokuð í tvær og hálfa viku. Ég í einangrun en restin í sóttkví.
– Er ekki rétt að sambýliskona þín er alveg komin á steypirinn? Hvernig hefur hún það og hvernig var það fyrir hana að vera með þig veikan kasólétt?
Ég held að ég muni aldrei getað fullþakkað sambýliskonu minni sem gengin var rúma átta mánuði á leið fyrir að sjá alfarið um heimilið meðan ég var í einangrun. Það var mikil óvissa í kringum óléttuna bæði hættan að hún færi af stað og ég gæti ekki verið með henni eða að hún eða eitthvað af börnunum myndu fá veiruna. Þetta hefði getað sett öll fæðingaplön algerlega úr jafnvægi en við vorum blessunarlega það heppin að ég var sá eini sem veiktist og þau sluppu. Núna er allt komið í jafnvægi og við bíðum átekta eftir fæðingunni en settur dagur var síðasta föstudag.
– Finnst þér fólk almennt virða reglur tengdar samkomubanni?
Almennt held ég að flestir sýni skynsemi í þessu og passi sig og aðra. Auðvitað er það þannig að fólk er orðið þreytt á fjarveru frá vinum og ættingjum og kannski aðeins farið að stækka hópinn sem það hittir en ég held að árangurinn tali sínu máli um að þjóðin hefur fylgt þeim leiðbeiningum sem okkur hafa verið veittar, sýnt skynsemi og mun sigrast á þessu saman.
– Hvaða lærdóm getum við dregið af heimsfaraldrinum?
Ég held að það sé mjög margt. Í fyrsta lagi að taka engu sem sjálfsögðum hlut. Þær breytingar sem hafa orðið á samfélaginu eru fáránlega miklar á stuttum tíma og aðlögunarhæfni okkar til fyrirmyndar. Helstu fræðimenn heimsins hafa talað um möguleikann á svona faraldri í mörg ár og því er mikilvægt að vera tilbúin sem ég held að heimurinn hafi ekki verið en verður það vonandi næst. Þá er Microsoft Teams, sem ég skildi ekki tilganginn með þegar við fórum að skoða það í vinnunni, skyndilega orðið mikilvægasta forritið í tölvunni og símanum. Fjarvinna er ekkert mál árið 2020 og skrifstofan þarf ekki að vera á ákveðnum stað.
– Hvaða aðferðir ertu að nýta til að eiga í samskiptum við fólk?
Eins illa og mér er við að vera að hrósa Microsoft þá verður að segjast að Teams er algjörlega búið að bjarga vinnunni hjá mér og örugglega mörgum öðrum á þessum tímum. Við hjá HS Orku höfum verið að vinna í þessum málum síðustu ár og vorum vel í stakk búin til að takast á við þessar breyttu aðstæður. Ég nota því Teams mest í vinnunni. Persónulega fara flest mín samskipti fram á Facebook Messenger og svo grípur maður í símann við og við og fær og sendir eitt og eitt snap. Ég verð seint áhrifavaldur á þessum samfélagsmiðlum samt.
– Ef þú fengir bara að hringja eitt símtal í dag, hver fengi það símtal og hvers vegna?
Eins sorglegt og það er þá yrði það örugglega í Friðrik „markvörð“ Friðriksson sem vinnur með mér hjá HS Orku í þeim tilgangi að stilla saman strengi eins og við gerum á hverjum degi.
– Ertu liðtækur í eldhúsinu?
Stutta svarið er já. Í aðeins lengra máli þá er ég veislukokkur. Mér leiðist að elda hversdagslegan mat þó ég geri það alveg. Þegar öll börnin eru hjá okkur hræri ég alveg í hakk og spagettí og þess háttar enda finnst mér mikilvægt að fjölskyldan borði saman kvöldmat þó hann sé oft á léttum þönum hjá virkum börnum. Ég aftur á móti hef mjög gaman af því að elda góðan mat og reyni að leika mér meira þar. Þegar við erum bara tvö heima þá er matseðilinn aðeins öðruvísi, yfirleitt annað hvort heimsent eða veisla á grillinu eftir því hverju við nennum.
– Hvað finnst þér skemmtilegast að elda?
Ég er svo mikill alfa karlmaður að ég kann best við mig á grillinu. Þar finnst mér skemmtilegast að elda spikfeitar nautasteikur í öllum stærðum og gerðum og veit ekki um neinn sem hefur slegið hendinni á móti nauti af grillinu hjá mér. Er svo aðeins farinn að bæta við mig meðlætinu sem ég nennti aldrei að hugsa um og er til dæmis núna að vinna í að fullkomna chimichurri sem meðlæti. Að grilla naut er einfalt og krefjandi í senn og er bara tvennt sem þarf að muna með góða nautasteik. Hún á ekki að þurfa neina sósu enda á hún að vera safarík og sjálfri sér nóg. Þá hef ég þá reglu með naut að elda það helst aldrei meira en svo að góður dýralæknir geti ekki bjargað því.
– Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?
Í ljósi síðasta svars kemur kannski ekki á óvart að það er grillað nauta-Rib-Eye með chimichurri. Það er bara ekkert betra en heimagrillað nautakjöt með góðu meðlæti og góðu víni í góðum félagsskap.
– Hvað geturðu ekki hugsað þér að borða?
Tómata sem eru fæða djöfulsins. Ég legg til að við förum í svipað átak og með sígarettureykingar fyrir 30 árum og útrýmum þessu. Birtum reglulega yfirlit yfir það hversu margir krakkar á grunnskólaaldi borða þetta drasl og setjum okkur það markmið að útrýma þessu úr samfélaginu fyrir 2024.
– Hvað var bakað síðast á þínu heimili?
Það munu vera Rice Krispies-kökur sem voru bornar fram í fámennu en mjög góðmennu sjö ára fjölskylduafmæli heimasætunnar, hennar Emblu.
– Ef þú fengir 2000 krónur, hvað myndir þú kaupa í matinn?
Hérna á maður líklega að vera þjóðlegur og leggja til eitthvað hollt en ef ég svara þessu heiðarlega þá væri það líklega ein af þeim þremur pizzum sem Domino’s væru með á Tríó tilboði sínu í það skiptið. Ég set viljandi ekki #ad fyrir aftan textann þar sem ég er því miður ekki styrktur af Domino’s en vona að þeir setji smá aukapening í knattspyrnudeild Keflavíkur fyrir þessa auglýsingu.