Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Geri mitt besta til að virkja starf og fræðslu fyrir ungmenni
Fimmtudagur 20. október 2016 kl. 11:38

Geri mitt besta til að virkja starf og fræðslu fyrir ungmenni

-á Suðurnesjunum og koma skoðunum þeirra til skila

Júlíus Viggó Ólafsson er 15 ára Sandgerðingur sem nýlega var kjörinn aðalmaður í Ungmennaráð Samfés. Í ráðinu er Júlíus fulltrúi Suðurnesja og hann telur mikilvægt að koma skoðunum ungs fólks til skila út í samfélagið og til stjórnvalda. Ungmennaráðið er þó ekki eina áhugamál Júlíusar en honum er margt til lista lagt og hefur mörg áhugamál. Þar á meðal eru tónlist, söngur, vísindi, mannkynssagan, skriftir, skáldsögur og kvikmyndir, heimspeki, pólitík og að teikna. Hann sér fyrir sér að gera eitthvað skapandi í framtíðinni og verða leikstjóri eða tölvuleikjasmiður. Og jafnvel gefa út bók. Allt eins gæti hann endað í pólitíkinni en hún rennur í blóðinu.

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hvað gerið þið í ungmennaráðinu og hvað þýðir þetta fyrir þig að hafa verið kosinn fulltrúi Suðurnesja?
Ungmennaráð Samfés (Samtök félagsmiðstöðva á Íslandi) er vettvangur þar sem unglingar á aldrinum 13 til 16 ára geta haft áhrif á samfélagið og gert það að betri stað fyrir ungmenni og aðra. Ungmennaráðið sér um alls kyns fræðslu sem snertir líf unglinga í dag. Ráðið er samansett af átján aðalmönnum af öllu landinu sem kosnir eru til tveggja ára og níu varamönnum sem kosnir eru til eins árs og hlaupa í skarðið ef aðalmaður kemst ekki. Ungmennaráðið fundar á sex vikna fresti.

 

Fyrir tveimur árum var ég kosinn sem varamaður en varð aðalmaður þegar fulltrúi hætti í ráðinu og næsta árið á eftir var ég aftur kosinn sem varamaður og sat nokkra fundi. Ég bý þess vegna yfir mikilli reynslu um þau verkefni sem ungmennaráðið er að vinna að. Þar sem ég hef nú verið kosinn aðalmaður í kjördæmi Suðurnesja og Kragans er ég tilbúinn að taka á mig meiri ábyrgð og taka að mér stærra hlutverk í ráðinu. Einnig ætla ég að gera mitt besta til að virkja starf og fræðslu fyrir ungmenni á Suðurnesjunum og koma skoðunum ungmenna á svæðinu til skila.

 

Hverju vilt þú koma í gegn?
Það er mikilvægt fyrir mig að vera fulltrúi unglinga á Suðurnesjunum og sjá til þess að skoðunum þeirra sé komið til skila í ungmennaráðinu og í samfélaginu yfir höfuð. Sömuleiðis eru önnur málefni sem verið er að vinna að í ráðinu. Þar á meðal að benda stjórnvöldum og Menntamálaráðuneyti á það að ítrekað sé verið að brjóta á réttindum barna og á 12. grein Barnasáttmálans sem fjallar um að samráð skuli hafa við börn þegar teknar eru ákvarðanir sem hafa áhrif á líf og umhverfi barna. Barnasáttmálinn var lögfestur á Íslandi árið 2013.

 

Sem dæmi má nefna þær breytingar sem gerðar voru á skólakerfinu án þess að ræða við þá sem breytingin varðar, sem sagt ungmenni. Einnig erum við í ráðinu að taka saman niðurstöður frá landsþingi ungs fólks sem Samfés stendur fyrir og var haldið 2. október. Þar komu saman hátt í 400 ungmenni af landinu öllu og ræddu skoðanir sínar á mismunandi málefnum til dæmis vinnumarkaðinum, réttindum ungmenna, andlega heilsu ungs fólks og þá þjónustu sem þeim er veitt. Niðurstöður frá landsþinginu verða birtar síðar þegar búið er að vinna úr þeim. Ályktun frá landsþingi ungs fólks um fyrrnefndar breytingar á skólakerfinu verður send Menntamálaráðuneyti á næstu dögum.

 

Af hverju bauðstu þig fram?
Eins og ég hef komið inn á þá er ég búinn að vera hluti af Ungmennaráðinnu í þónokkurn tíma og vil halda áfram að leggja mitt af mörkum við störf og verkefni þess. Svo finnst mér einnig afskaplega skemmtilegt að vera í ungmennaráðinu og á marga góða vini þar.

 

Fyrir hverju ertu spenntastur?
Ég er spenntur fyrir því að vinna að mikilvægum verkefnum á vegum ungmennaráðsins og Samfés og að fræðslu fyrir ungmenni á landinu. Ég hef mikinn áhuga á því að koma röddum ungmenna til skila í samfélaginnu eins og til dæmis til Menntamálaráðaneytis, Alþingis og ríkistjórnarinnar.

Einnig er áhugavert ungmennaskiptaverkefni í gangi þar sem við erum að vinna með ungmennaráði frá Clare á Írlandi sem ég er mjög spenntur fyrir. Svo er ég líka bara mjög spenntur fyrir því að vinna með frábæra fólkinu í ráðinu, bæði því sem ég nú þegar þekki og því sem verið var að kjósa inn í fyrsta skipti.

 

Af hverju er þetta ráð mikilvægt fyrir ungt fólk?
Ungmennaráðið er mikilvægur vettvangur fyrir ungt fólk til þess að koma skoðunum þeirra til skila í samfélaginu. Að læra á formlegar boðleiðir til þess og að koma fram. Ungmennaráðið vinnur að bættri stöðu unglinga og fræðslu til þeirra um málefni sem þau varðar og er jafningjafræðsla um „sexting” nýlegt dæmi um það. Ungmennaráðið er mjög uppbyggjandi vettvangur fyrir þá sem þar eru fulltrúar þar sem þekking þeirra og reynsla vex og þau fá góða þjálfun fyrir krefjandi verkefni í framtíðinni. Ég vil endilega hvetja alla þá sem hafa áhuga til að sækja um að vera fulltrúar þeirra félagsmiðstöðvar á næsta landsmóti til að hafa áhrif. Sömuleiðis er hægt að hafa samband við ungmennaráðið á Facebook og á netfanginu [email protected]. Helstu skilaboðin mín til ungmenna eru að það er svo mikilvægt að taka þátt og vera virkur.