Gerðubekkur við Bergvík
Gerða Halldórsdóttir var dyggur félagsmaður í Golfklúbbi Suðurnesja til fjölda ára en hún lést í janúar 2019. Í minningu hennar gaf eftirlifandi eiginmaður Gerðu, Guðmundur Rúnar Hallgrímsson, og fjölskylda klúbbnum fallegan bekk sem staðsettur er við þriðju braut Hólmsvallar í Leiru, Bergvíkina.
Gerða talaði mikið um náttúrufegurðina í Leirunni og þá sérstaklega í Bergvíkinni enda var það uppáhaldsholan hennar. Því var það aldrei spurning hvar fjölskyldan vildi að bekkurinn yrði staðsettur.
Á bekknum er tilvitnun í anda Gerðu frá Arnold Palmer sem hljóðar svo: „Að fá að leika í fallegu umhverfi er hluti af því sem golf snýst um.“
Þann 21. júlí síðastliðinn varð Guðmundur Rúnar 85 ára gamall og við það tilefni kom fjölskyldan saman í Leirunni og afhenti golfklúbbnum bekkinn að gjöf. Það var framkvæmdastjóri Golfklúbbs Suðurnesja, Andrea Ásgrímsdóttir, sem tók við gjöfinni fyrir hönd klúbbsins og afhenti Guðmundi Rúnari blómvönd í tilefni afmælis hans.
Það er von fjölskyldunnar að kylfingar sem spila Leiruna geti tyllt sér á bekkinn og notið náttúrufegurðarinnar allt um kring.
Golfklúbbur Suðurnesja færir fjölskyldunni innilegar þakkir fyrir þessar gjöf. Það er gífurlega dýrmætt þegar meðlimir gefa til baka og svona nokkuð er það sem heldur sögu klúbbsins á lofti.