Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Gerðist  áskrifandi að Fiskifréttum tólf ára
Föstudagur 22. febrúar 2008 kl. 15:34

Gerðist áskrifandi að Fiskifréttum tólf ára

Gísli Reynisson í Reykjanesbæ heldur úti vefsíðunni aflafréttir.com en þar má lesa margvíslegan fróðleik um aflabrögð og báta, sem hefur verið áhugamál Gísla frá því hann var gutti suður í Sandgerði fyrir margt löngu. Enda er hann yngsti áskrifandi Fiskifrétta í sögu blaðsins, keypti áskrift aðeins tólf ára gamall árið 1987 og hefur síðan þá safnað blaðinu samviskusamlega í möppur. Hann hefur síðastliðin 15 ár safnað aflatölum og upplýsingum um báta allt aftur til ársins 1896 en hann hefur grúskað talsvert á Þjóðskjalasafninu í því sambandi. Gísli á því orðið nokkuð veglegan gagnagrunn og gaukar oft sögulegum fróðleik að lesendum vefsins, sem einnig geta fylgst með aflabrögðum dagsins í dag en Gísli birtir reglulega lista yfir aflahæstu bátana á vertíðinni. Þá hefur hann undanfarin ár séð um aflalistana fyrir Fiskifréttir.

„Bryggjan í Sandgerði hafði mikið aðdráttarafl og þangað fór ég oft með pabba  til að spjalla við kallana og athuga aflabrögðin. Þau voru líka all nokkur skiptin sem maður stalst niður á bryggju á kvöldin í óþökk foreldrana. Mér fannst fátt meira gaman en að fylgjast með bátunum koma inn. Ég hef alltaf hrifist af  því að sjá drekkhlaðinn bát,“ svarar Gísli þegar hann er inntur eftir því hvernig þessi áhugi kviknaði.
Sjómennskan heillaði guttann og 14 ára gamall fór hann í sinn fyrsta róður. Var á sjó með frændum sínum á Hlýra GK og síðar með Grétari Mar. Þaðan lá leiðin í FS þaðan sem hann útskrifaðist af vélstjórabraut á haustönn 1996. Í dag starfar hann hjá Hagvögnum sem næturmaður auk þess sem hann ekur hópferðabílum þegar svo ber undir.

Gísli setti vefinn www.aflafrettir.com upp í október á síðasta ári og hafa viðbrögðin verið mjög góð. Gestafjöldinn eykst stöðugt og segist Gísli verða var við síaukinn áhuga.
„Skipstjórar víða af landinu haft verið að hringja í mig eða senda póst til að óska mér til hamingju. Mikið af því sem er inni á síðunni er einmitt tilkomið vegna óska og ábendinga frá þessum aðilum. Það er vissulega gaman að fá þessi viðbrögð.“
Gísli leggur mikla vinnu í að afla gagna og vinna úr þeim.  Hann viðurkennir að yfirlegan yfir aflatölunum sé all nokkur – grúsk af einskærum áhuga.

Á síðunni má oft finna sögulegan fróðleik um bátana, afla- og útgerðarsögu þeirra langt aftur í tímann. Gísli segir að mörg ævisagan hafi verið rituð um skipstjóra eða útgerðarmenn en bátarnir eigi ekki síður sína sögu sem þurfi að skrá og varðveita. „Aflatölur eru mikilvægur þáttur í sögu þeirra og hver bátur hefur sína sál,“ segir Gísli.


Á kafi í aflatölum. Gísli Reynisson við skrifborðið þaðan sem hann gerir út vefsíðuna www.aflafrettir.com . VF-mynd: elg


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024