Gerði heimildarmynd um Gumma Steinars - „Á meiri virðingu skilið“
Ný heimildarmynd um knattspyrnumanninn Guðmund Steinarsson var forsýnd í Sambíóunum í Keflavík í gær. Myndin er eftir Keflvíkinginn Garðar Örn Arnarson og er farið yfir frábæran feril Guðmundar sem er leikja- og markahæsti leikmaður Keflavíkur frá upphafi. Guðmundur hefur skorað 100 mörk í 289 leikjum í meistaraflokki en hann hefur leikið nær allan sinn feril hjá Keflavík.
„Ég byrjaði á þessari mynd í mars á þessu ári og upphaflega átti þetta að vera stuttmynd. Þetta verkefni stækkaði aðeins frá upphaflegri hugmynd. Ég tel að Gummi Steinars hafi ekki fengið þá virðingu sem hann á skilið í íslenska knattspyrnuheiminum og fannst hann tilvalið viðfangsefni í heimildarmynd,” segir Garðar Örn. „Ég hóf tökur á myndinni á síðasta ári og boltinn fór svo að rúlla þegar ég hóf samstarf við Stöð2 Sport. Þeir útveguðu mér mikið myndefni og í staðinn munu þeir sýna myndina eftir áramót.“
Garðar Örn útskrifaðist úr Kvikmyndaskóla Íslands í mars síðastliðnum. Hann segir að það hafi verið lítið mál að fá Guðmund til að samþykkja að láta gera heimildarmynd um sig. „Það var ekkert mál. Konan hans segir að hann kunni ekki að segja nei,“ segir Garðar léttur í bragði. „Í myndinni er farið yfir allan feril Gumma, bæði hæðir og lægðir. Hann er mjög einlægur í viðtölum en ég ræddi einnig við vini, samherja og mótherja. Farið er vel yfir tímabilið 2008 sem er mörgum Keflvíkingum erfitt.“
Garðar Örn vann að mestu myndina einn en fékk aðstoð frá félaga sínum, Davíð Erni Óskarssyni, við lokavinnslu myndarinnar. Myndin kemur út á DVD eftir helgi en þar verður talsvert af aukaefni sem ekki kemur fram í myndinni sjálfri. „Þar má m.a. sjá öll mörk hans með Keflavík á ferlinum. Gummi er búinn að sjá myndina og er mjög sáttur,“ bætti Garðar Örn við.
Það er mikið að gera hjá Garðari Erni um þessar mundir og er hann einnig að vinna heimildarmynd um annan íþróttamann af Suðurnesjum, Örlyg Sturluson úr Njarðvík, sem lést langt fyrir aldur fram. Stefnt er að því að myndin komi út 21. maí næstkomandi sem var afmælisdagur Örlygs. „Ég hef unnið þessa mynd í miklu samstarfi við fjölskyldu Örlygs enda viðfangsefnið viðkvæmt. Þú gerir svona mynd bara einu sinni,“ sagði Garðar að lokum.
Heimildarmyndin var sýnd fyrir fullu húsi í Sambíóunum í gær og verður einnig sýnd bæði laugardag og sunnudag kl. 16:00 og 18:00 í Sambíóunum í Keflavík. Myndin fer í sölu á DVD í Nettó í Reykjanesbæ eftir helgi.
GS #9 TRAILER from Gardar arnarson on Vimeo.