Gera út gamlan eikarbát til skemmtisiglinga
Feðgarnir Þórður Sigurðsson og Sigurjón Þórðarsonn vinna að því þessa dagana að breyta gömlum eikarbát í skemmtisiglingabát sem þeir hyggjast gera út frá Grindavíkurhöfn. Þeir feðgar eru engir nýgræðingar þegar kemur að sjómennsku en breytingin er sú að nú ætla þeir að veiða ferðamenn um borð í staðinn fyrir fisk.
„Ætli þetta hafi ekki verið eina leiðin til að komast á sjóinn aftur. Það er svo erfitt að komast inn í kvótakerfið. En það er enginn kvóti á ferðamönnum,“ svarar Þórður inntur eftir því hvað hafi dregið þá feðga í þetta verkefni.
Þórður og Sigurjón ætla m.a. að bjóða ferðamönnum, erlendum sem innlendum, upp á náttúruskoðun meðfram ströndum Grindavíkur. Þórður segir margt forvitnilegt að skoða á þessum slóðum, t.d. hið magnaða Krýsuvíkurberg með áhugaverðum hraunlagastöflum og miklu fuglalífi.
„Þó maður hafi stundað sjóinn í áratugi er þetta ákveðin uppgötvun fyrir mann sjálfan. Maður var ekkert endilega að horfa eftir þessum hlutum á sjónum, enda upptekinn af öðru. Núna horfir maður öðruvísi á umhverfi sitt úti á sjó , upplifir náttúruna á annan hátt og takmarkið er að koma þessari upplifun til gestanna,“ segir Þórður sem var í óða önn að innrétta lestina þegar blaðamann bar að garði. Þar verður þægilegt farþegarými með bólstruðum bekkjum.
Auk náttúruskoðunar, s.s. fugla- og hvalaskoðunar verður boðið upp á ævintýra- og óvissuferðir.
Þórður segir þá feðga hafa fengið góðar viðtökur hjá ferðaskrifstofunum og uppselt sé í fyrstu ferðina sem farin verður 15. maí. Fimmtíu manns eru bókaðir í þá ferð en það er heldur meiri fjöldi en báturinn tekur. Þeir feðgar leysa málið með því að fá annan bát frá Reykjavík hjá fyrirtæki af sama meiði sem þeir verða í samstarfi við.
Fyrirtæki þeirra feða hefur fengið nafnið Sportsigling en farkosturinn heitir Siggi Þórðar GK 197, 26 tonna eigabátur smíðaður á Akureyri 1975. Báturinn er nefndur eftir föður Þórðar en hann var sægarpur mikill til fjölda ára.
Vefsíða fyrirtækisins er á slóðinni www.sportsigling.is
---
Efri mynd: Þórður við stýrishúsið á Sigga Þórðar. Sonurinn Sigurjón var upptekinn í skólanum þegar blaðamaður kíkti um borð en hann er að ljúka vélstjóranámi.
Neðri mynd: Þórður var að innrétta lestina sem nú fær nýtt hlutverk sem þægilegt farþegarými. VFmyndir/elg.