Gengið yfir 70 mínútur
Á fimmtudaginn hófust Símadagar í Reykjanesbæ hjá Símanum en í gær mætti Idol-stjarnan Jón Sigurðsson og tók nokkur lög og gaf eiginhandaráritanir. Vel var mætt og var verslunin troðfull af krökkum á öllum aldri sem vildu sjá berja Idol-stjörnuna augum og fá mynd af sér með honum. Eftir skemmtileg lög og töluvert mikið af eiginhandaráritun mættu strákarnir í 70mínútum þeir Auddi, Pétur og Hugi.
Krakkarnir hópuðust í kringum Popptíví bifeið þeirra félaga og voru krakkarnir svo margir að þeir félagar áttu erfitt með að komast inn í Símann. Þeir hófu þá að gefa eiginhandaráritanir en að því loknu var ákveðið að Hugi myndi gera áskorun sem hafði borist þeim félögum og tilkynnt var að þeir þyrftu alla krakkana til að taka þátt. Fól áskorunin það í sér Hugi átti að liggja á götunni á meðan krakkarnir, hver á fætur öðrum, gengu yfir hann. Um 70 krakkar gengu yfir bakið á Huga með tilheyrandi ópum og öskrum í honum.
Eftir áskorunina kenndi hann til eymsla í baki enda ekkert skrítið eftir allar þessar fætur á bakinu þó svo að sumar hefðu nú verið léttar. Símadögum í Reykjanesbæ lýkur í dag þegar Síminn stendur fyrir knattþrautum í samstarfi við Knattspyrnu Akademíu Íslands. Landsfrægir knattspyrnumenn á borð við Guðna Bergsson, Eyjólf Sverrison, Sigurð Jónsson og Arnór Guðjohnsen verða með skemmtum fyrir alla fjölskylduna við Keflavíkurvöll milli 14 og 16 í dag.
Myndirnar: Strákarnir úr 70 mínútum fengu blíðar móttökur á Hafnargötunni í gær. VF-ljósmynd/Atli Már Gylfason.