Mannlíf

Gengið um söguslóðir Unu Guðmundsdóttur í Garðinum
Göngufólk fjölmennti í Sjólyst, hús Unu Guðmundsdóttur.
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
þriðjudaginn 10. október 2023 kl. 08:40

Gengið um söguslóðir Unu Guðmundsdóttur í Garðinum

Mikil og góð þátttaka var í sögugöngu á vegum Hollvinafélags Unu Guðmundsdóttur sem fram fór í Garðinum þarsíðasta laugardag. Leiðsögumaður í göngunni var Hörður Gíslason. Hann tók á móti göngufólkinu í Útskálakirkju þar sem hann ræddi m.a. um Sjólyst, sem á seinni árum hefur verið kölluð Unuhús. Eftir fyrirlestur í kirkjunni var farið að leiði Unu í kirkjugarðinum og þar sett niður haustblóm. Það var einnig gert á leiði Ernu Sveinbjarnardóttur, sem í mörg ár fór fyrir Hollvinafélagi Unu Guðmundsdóttur. Frá Útskálakirkju var svo gengið niður að Ósi og eftir sjávarkambinum inn í Gerðar, þar sem Sjólyst stendur.

Sjólyst í Garði er lítið hús staðsett skammt ofan við Gerðavör við höfnina í Gerðum. Húsið var byggt árið 1890 af Andrési Andréssyni, sem var smiður í Garðinum. Talið er að byggingarefni hafi að mestu komið úr farmi Jamestown sem strandaði við Hafnir 1881. Húsið á fyrirmynd sína í torfbæjunum og finnast fá hús af þessari gerð nú. Um miðja síðustu öld var gerð viðbygging við Sjólyst þar sem er eldhús og snyrting en anddyri var reist nokkru fyrr.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Sjólyst hefur af mörgum verið kennt við Unu Guðmundsdóttur og þá kallað Unuhús, en Una var kölluð Völva Suðurnesja bæði af Grétari Fells svo og Gunnari M. Magnússyni sem skrifaði samnefnda bók.

Una bjó í húsinu megnið af ævi sinni ásamt fósturdóttur sinni Stefaníu G. Kristmundsdóttur og bróðir Unu, Stefán, bjó þar einnig þegar hann var heima í Garðinum í fríum en hann keypti húsið um 1920. Stefán átti mörg handtökin í húsinu og munum þess. Í húsinu var lengi bókasafn sveitarfélagsins og sá Una um það og muna margir heimsóknir sínar í bókasafnið hjá Unu.

Eftir lát Unu árið 1978 var húsið komið í eigu bæjarfélagsins að hennar eigin ósk en það stóð að mestu autt um árabil.

Segja má að Sigurður Ingvarsson rafverktaki í Garði og Baldvin Njálsson útgerðarmaður og fiskverkandi hafi bjargað Sjólyst frá glötun. Ýmis mannvirki voru rifin í umhverfi Sjólystar fyrir mörgum árum sem Sigurður, sem þá var í hreppsnefnd Gerðahrepps, kom í veg fyrir að örlög Sjólystar yrðu að lenda undir jarðýtu. Á sama tíma vantaði Nesfiski, fyrirtæki Baldvins, húsnæði fyrir starfsfólk. Húsið var því tekið og lagfært og gert íbúðarhæft.

Hollvinafélag Unu Guðmundsdóttur var svo stofnað 18. nóvember 2011. Samningur var í framhaldinu gerður milli Hollvinafélagsins og Sveitarfélagsins um rekstur og uppbyggingu Sjólystar og hefur hann verið endurnýjaður reglulega síðan. Bæjarfélagið stýrði og kostaði endurbyggingu Sjólystar en Hollvinafélagið studdi vel við með öflun styrkja og var með í ráðum. Arkitekt framkvæmdanna við húsið var Magnús Skúlason en byggingameistari var Ásgeir Kjartansson, sem vann verkið ásamt syni sínum Bjarka sem einnig er byggingameistari. Sigurður H. Guðjónsson, húsasmíðameistari í Sandgerði smíðaði alla glugga í húsið og gaf hann sína ómetanlegu vinnu. Hann smíðaði einnig útidyrahurðirnar. Verkefnið hefur einnig notið stuðnings Húsafriðunarsjóðs og Uppbyggingarsjóðs Suðurnesja ásamt styrkja frá ýmsum einstaklingum. Á afmælisdegi Unu 2020 var endurbótum á Sjólyst lokið og fékk Hollvinafélagið húsið afhent þann dag til varðveislu og reksturs, segir m.a. í sögu Sjólystar á vef Suðurnesjabæjar.

Sögugangan síðasta laugardag endaði í Sjólyst og þar endaði jafnframt sumardagskrá Sjólystar en þar hefur verið boðið upp á kaffi og vöfflur allar helgar í sumar. Nú tekur vetrarstarfið við en næst á dagskrá er aðalfundur hollvinafélagsins í nóvember.